Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:52:51 (668)

2000-10-17 16:52:51# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Eitthvað hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tekið skakkt eftir þegar hann bar upp á mig vitleysur í málflutningi, jafnvel þannig að hann hefði ekki heyrt annað eins og hefur hann þó marga fjöruna sopið í þessum sal og víðar. Það sem ég sagði var að Alþingi skikkar ekki dómara til að fara út úr dómhúsunum eitthvert annað til þess að halda þar dómþing. Það er andstætt lögum, það er andstætt dómstólalögunum og það er andstætt lögunum um meðferð opinberra mála. Alþingi setur lög og dómarar fara eftir þeim. Þeir eiga einfaldlega að halda dómþingin í dómhúsunum. Þeir geta vikið frá því í undantekningartilfellum, það er rétt en það verður ekki meginreglan andstætt lögunum.

Herra forseti. Ég vitna, með þínu leyfi, í lög um meðferð opinberra mála, 7. gr. laganna:

,,Dómþing skulu haldin á reglulegum þingstöðum og í dómsölum ef kostur er. Rétt er þó að heyja dómþing á öðrum stöðum ef þörf er á, svo sem í fangahúsi þar sem sakborningi er haldið eða á heimili eða sjúkrahúsi ef skýrslu þarf að taka af sjúkum manni.``

Þetta er í lögum um meðferð opinberra mála frá 1991.

Og í dómstólalögunum segir í 21. gr., með leyfi forseta:

,,Héraðsdómstólar skulu hver um sig hafa fastan þingstað á aðsetri sínu, svo og annars í hverri þinghá samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra séu þær fleiri en ein innan umdæmis dómstóls.``

Herra forseti. Það sem ég segi er að dómarar eru sjálfstæðir í störfum sínum og þeir starfa á grundvelli laga sem Alþingi setur en Alþingi skipar þeim ekki að fara út úr dómsölunum eitthvað annað nema þá með sérstökum lögum þar um að dómstólarnir séu ekki staðir þar sem eigi að halda dómþing.