Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:54:58 (669)

2000-10-17 16:54:58# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ekki hef ég áhuga á því að leggja hv. þm. Hjálmari Jónssyni orð í munn né gera honum upp skoðanir, honum er rétt leiðrétting orða sinna ef eitthvað hefur verið ranglega eftir honum haft. En ég var litlu nær eftir þessa ræðu.

Mér fannst hv. þm. staðfesta allt sem ég var að segja. Auðvitað setur Alþingi lögin, líka lögin um meðferð opinberra mála, líka dómstólalögin. Það kom fram í máli hv. þm. Alþingi setur þann lagaramma og grundvöll sem dómstólarnir starfa eftir og síðan dæma dómstólarnir á þeim grunni.

Þar af leiðandi var, af því hv. þm. var að ræða þetta í samhengi við þetta frv., voðalega erfitt annað en að skilja hv. þm. svo að hann teldi það íhlutun í sjálfstæði dómstólanna að gera þessa breytingu. Því er ég algjörlega ósammála. Hitt liggur fyrir að Alþingi hefur sett þannig starfsgrundvöll, m.a. fyrir dómhaldinu, að að jafnaði fari það eðlilega fram í dómsal en það eru líka heimilaðar frá því undanþágur. Úr því það má á sjúkrahúsum og annars staðar má alveg eins hugsa sér að í þessum sérstöku tilvikum gengi Alþingi þannig frá málum að þegar í hlut ættu erfið mál af þessu tagi færi dómþingið fram á sérhæfðum vettvangi til þess að hlífa þolendunum og skapa þá umgjörð utan um þær aðstæður sem við teldum bestar. Réttaröryggið þarf ekki að bera fyrir borð þrátt fyrir það. Það er fjarri öllu lagi. Það má ganga þannig frá því að það sé jafnrækilega tryggt að réttarhaldið fari fram við aðstæður sem tryggja fullt réttaröryggi o.s.frv.

Ég endurtek það, herra forseti, að ég held að það sé ekkert innlegg í þetta mál þegar við ræðum um hvort gera eigi þessa litlu breytingu á lögunum um meðferð opinberra mála, færa hana til baka til fyrra horfs, sem er að sjálfsögðu í valdi Alþingis, að tala í því sambandi um óhæfi dómstólastigsins.