Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:57:12 (670)

2000-10-17 16:57:12# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Nauðsynlegt er að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að því hvort hann vilji breyta lögum um dómstóla og lögum um meðferð opinberra mála í þá veru að öll mál sem snerta kynferðisafbrot gagnvart börnum skuli fara fram í dómhúsi og þar með að skikka dómara alfarið til þess að heyja dómþingið í Barnahúsi.

Með breytingunni, sem lögð er til í frv. til laga sem hér er til umræðu, er um það talað að færa til fyrra horfs þar sem lögreglan tekur skýrsluna, væntanlega í Barnahúsi, sem er þó engin trygging fyrir heldur nema þá að breyta öðrum lögum þar um. Þá þarf að fara eftir segulbands- og vídeóupptökum af yfirheyrslu og rannsókn lögreglunnar. Þá er dómari ekki lengur með milliliðalausa vitnaleiðslu gagnvart barninu og öðrum málsaðilum í því máli. Mér er afar mikilvægt að réttaröryggi sé tryggt og ekki verði á grundvelli þess að til er Barnahús farið að líta á það sem aðalatriðið og við þurfum að lengja á milli dómarans, sem þarf að meta um trúverðugleikann, og málsaðilanna sem eru í mjög erfiðri aðstöðu og aðstæðum.

Ef hv. þm. vill breyta öllum þessum lögum og skylda menn til að fara í Barnahúsið hef ég varla heyrt aðra eins vitleysu.