Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:08:39 (674)

2000-10-17 17:08:39# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mikilvæga mál og þeim sem þátt tóku í henni. Ég verð þó að segja, eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni, að málflutningur hæstv. dómsmrh. olli mér verulegum vonbrigðum. Ég hafði vænst þess þegar ég kom í ræðustól og mælti fyrir málinu að hægt væri að haga málflutningi þannig í dag að hægt væri að leita sátta. Ég reyndi að orða framsöguræðu mína þannig að við gætum náð sátt og lendingu. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vona að svo sé þrátt fyrir þau orð sem fallið hafa af hálfu hæstv. dómsmrh. sem mér finnst hafa bundið sig óskiljanlega í óhagganlega niðurstöðu. Ég get ekki fundið nokkur efnisleg rök í málflutningi hennar þó ég leiti með logandi ljósi.

Hæstv. dómsmrh. sagði: ,,Við viljum hafa sátt í þessu máli.`` En hæstv. dómsmrh. verður að gera sér grein fyrir því að hún er í fullkominni ósátt við marga og það skiptir verulegu máli. Hæstv. dómsmrh. er í mikilli ósátt við stóran hluta þingheims og trú mín er sú að ef þetta kæmi hér til atkvæðagreiðslu þá væri meiri hluti fyrir því að samþykkja frv.

Hæstv. dómsmrh. er líka í málflutningi sínum í fullkominni andstöðu við fagaðila, sérfræðinga sem hafa fjallað um þessi mál. Hún er í málflutningi sínum í fullkominni andstöðu við 33 fagaðila og félagasamtök sem hafa samið áskorun og hvatt hæstv. dómsmrh. til þess að leita sátta. Mér sýnist líka að hæstv. dómsmrh. sé í fullkominni ósátt við hæstv. félmrh. sem hefur lýst allt annarri skoðun en hæstv. dómsmrh. Fram kom hjá félmrh. nýverið, rétt áður en þing var sett, að hann vildi að skýrslutökur af yngri börnum færu fram í Barnahúsi. Eftir að leiðbeinandi reglurnar komu frá dómstólaráði hef ég ekki heyrt að hæstv. félmrh. væri sáttur við þá niðurstöðu sem fékkst í þeim leiðbeinandi reglum sem þar voru settar fram enda eru þær að mínu mati hvorki fugl né fiskur og munu litlu breyta um framkvæmd mála. Ég verð að setja núna allt mitt traust á hv. allshn. sem fær málið til meðferðar og ég leyfi mér að spyrja hæstv. dómsmrh. að því hvort það breyti engu í hennar huga ef umsagnir ríkissaksóknara, Dómarafélagsins og dómstólaráðs væru á þann veg að styðja breytingu í þá veru sem hér er lögð fram eða einhverja aðra breytingu sem tryggði að skýrslutakan færi fram þar sem hagsmunum barnanna er best borgið sem flestir viðurkenna að sé í Barnahúsinu þar sem sérhæfð aðstaða er til þessarar skýrslutöku og markmiðið er samhæfing þannig að að skýrslutökunni komi allir þeir sem þess þurfa á rannsóknarstigi málsins. Markmiðið er að samhæfa eins og unnt er hlutverk barnaverndarnefnda og félagsmálayfirvalda annars vegar og hins vegar hlutverk lögreglu, saksóknara, lækna og fleiri við rannsókn mála. Ég spyr hæstv. dómsmrh. um það af því að það hefur komið fram hér að þessi breytta tihögun er í andstöðu við álit ríkissaksóknara og dómaranna.

Vegna þess sem hæstv. dómsmrh. sagði áðan eftir framsögu mína þá vil ég mótmæla því sem ég held að sé ekki rétt og er raunverulega sannfærð um að það er ekki rétt sem hæstv. dómsmrh. teflir fram í rökstuðningi fyrir sínu máli. Ég hef sagt það hér að a.m.k. yfir 80 ef ekki nær 90% þeirra mála sem kærð eru vegna meintra kynferðisbrota koma ekki til kasta dómstólanna vegna þess m.a. að sönnunarkröfur eru mjög harðar og krafist er mjög skýrra sönnunargagna. Það eru því ekki nema 10--20% málanna sem koma til kasta dómstóla. Þá spyr ég: Er ekki vanhugsað að dómararnir fari í skýrslutöku allra mála þegar svona lítið brot af þessum málum kemur síðan til dóms? Er ekki skynsamlegra að dómarar taki skýrslu af börnum fyrir dómi í þeim málum sem ákært er í eins og áður var og nýtist þá þessi sérstaka aðstaða til skýrslutöku af börnum í húsakynnum dómstólsins í því skyni?

Ég held að það sé ekki rétt sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. þegar hún segir að með lagabreytingunni sem var gerð 1999 höfum við verið að koma í veg fyrir að börnin þyrftu margsinnis að fara í skýrslutöku. Ég held að hvorki með lagabreytingunni sem var gerð 1999 né heldur með Barnahúsinu sé hægt að tryggja að barnið þurfi aldrei að koma tvívegis í skýrslutöku. En með því að færa málið til fyrra horfs er hægt að tryggja að 80--90% barnanna þurfi ekki að koma í dómhúsið heldur nægi að fara í Barnahúsið þar sem allt fer fram í senn, læknisskoðun, greining, meðferð og skýrslutaka. Það er ávinningurinn.

[17:15]

En eins og ég sagði er það þannig að meira að segja margir dómarar efast um að hægt sé að komast hjá því að yfirheyra barnið aftur fyrir dómi. Það á sér þá skýringu að ekki sé hægt að yfirheyra sakborning fyrr en eftir að barnið hefur gefið upphaflega skýrslu sína. Sé um mismunandi frásagnir að ræða getur þurft að kalla barnið aftur til skýrslutöku. Lagabreytingin frá 1999 tryggir því ekki að barnið þurfi ekki tvívegis að fara í skýrslutöku. En Barnahúsið tryggir að 80--90% barnanna þurfi aldrei að koma í dómhús þegar um er að ræða ákæru vegna kynferðisbrota gegn börnum. Það er ávinningurinn og hann er ekki svo lítill.

Með þessari lagabreytingu, eins og hún hefur verið framkvæmd, erum við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Alveg eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi í máli sínu er hvergi sama fyrirkomulag í Vestur-Evrópu og við búum við, ekki einu sinni í Noregi sem er þó líkast því fyrirkomulagi sem við höfum hérna þar sem börn undir 14 ára þurfa ekki að leita í dómhús.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi líka, sem er mikilvægt í þessu máli vegna málflutnings hæstv. dómsmrh., milliliðalausa málsmeðferð sem dómarar kalla eftir, þ.e. að dómari sem dæmi geti rætt við barnið á rannsóknarstigi þannig að það sé sami dómari sem er með barnið á rannsóknarstigi og með málið fyrir dómi. Mér finnst rökstuðningurinn og málatilbúnaðurinn sem hæstv. ráðherra setur fram falla algjörlega um sjálfan sig.

Ég ætla mér ekki, herra forseti, þó að mér finnist hæstv. dómsmrh. hafa stundum gefið tilefni til þess, að hafa stór orð uppi í þessum ræðustól því að ég vil freista þess að ná sátt í málinu. En ég spyr hæstv. dómsmrh. hvort hún geti ekki fallist á að skoða t.d. þá leið að börn undir 14 ára aldri fái skýrslutöku sína og frumrannsókn ávallt í Barnahúsi. Ég held að það sé sáttargjörð í málinu. Dómsmrh. mundi þá rétta út sáttarhönd í málinu sem allir gætu tekið í. Þó menn séu ekki fullkomlega sáttir við þetta og ég vilji hafa það eins og það var þannig að börn undir 18 ára aldri komi í Barnahús, þá mundi ég taka í höndina á dómsmrh. og það væri sátt í málinu ef hún væri tilbúin að ganga þá leið. Það er hægt. Ég spyr hæstv. dómsmrh. hvort hún vilji ekki svara því ákalli sem kemur fram hjá þessum 33 félagasamtökum, sem kemur fram hjá þingmanni eftir þingmann sem hefur komið í ræðustól, að leita sátta í þessu máli við þingið.

Það er ekki svo eins og hæstv. dómsmrh. hélt fram þegar hún varpaði fram spurningunni: Hvers vegna ríkir þetta vantraust á dómara? Þetta er ekki vantraust á dómara. Þeir hafa sagt að þeir séu að framfylgja lögum. Við erum fyrst og fremst að tala um hvað er best fyrir hagsmuni barnsins. Flest okkar telja, ekki bara við sem höfum komið í ræðustól, heldur margir aðilar sem um þetta mál fjalla, að hagsmunum barnsins sé best borgið með þessum hætti.

Mér fannst hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hitta naglann á höfuðið þegar hún sagði: Snýst þetta mál orðið um hreyfanleika dómaranna, hvort það megi hreyfa þá til með einum eða öðrum hætti? Menn eru farnir að tala um að hugsanlega verði þetta mál leyst með tækninni þannig að dómararnir geti setið í dómhúsi sínu og hlýtt á barnið og yfirheyrt í Barnahúsi. Ef svo er snýst þetta um hreyfanleika dómaranna. En ég trúi því ekki.

Mér finnst málið liggja með þeim hætti að allshn. fjallar nú um málið og kemst væntanlega að niðurstöðu sem allir geta sætt sig við. Einhver sagði áðan að málið mundi ekki hafa komið á borð þingmanna, það mál sem ég hef mælt fyrir, ef niðurstaða hefði fengist með þeim hætti, sem ég lýsti, að börn undir 14 ára aldri yrðu yfirheyrð og skýrslutaka færi fram af þeim í Barnahúsi. Það er rétt. Ég hefði sætt mig við þá niðurstöðu. Þess vegna skulu það vera lokaorð mín, herra forseti, að hafa þá trú og von að dómsmrh. sé fús til samstarfs við hv. allshn. í málinu. Enginn er bættur með því að hafa uppi stóryrði í þessu viðkvæma máli, við erum að fjalla um hræðilega glæpi sem eru framdir eru gagnvart börnum og setja kannski mark sitt á allt þeirra líf. Það er fyrst og fremst útgangspunkturinn og leiðarljósið sem við eigum að hafa: Hvernig eru hagsmunir barnanna best tryggðir í málinu?

Þegar við höfum það fyrir framan okkur, herra forseti, að við getum forðað því að t.d. 80--90% af þeim börnum sem talið er að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þurfi aldrei að koma í dómhúsið, þá er það þó nokkur ávinningur, herra forseti.

Ég hef lagt raunar tvær spurningar í lokin fyrir dómsmrh. Er hún reiðubúin til sátta, að fara þá leið að börn undir 14 ára aldri fái yfirheyrslu í dómhúsi? Spurning númer tvö: Ef umsögn Dómarafélagsins, ríkissaksóknara, lögreglu og dómstólaráðs verður jákvæð um þessa breytingu er hæstv. dómsmrh. þá opin fyrir því að skoða aðrar leiðir í málinu en nú er niðurstaðan og blasir við okkur í þeim leiðbeinandi reglum sem dómstólaráð vinnur eftir?

Ég skora á dómsmrh. að leita sátta í málinu. Í raun og sanni finnst mér það vera skylda hæstv. dómsmrh. að leita sátta við alla aðila í málinu.