Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:32:07 (679)

2000-10-17 17:32:07# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:32]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að komið verði í veg fyrir uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að lagasetningu með það að markmiði að fólk verði ekki látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi.``

Þáltill. sama efnis og sú sem hér liggur fyrir var lögð fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Tillagan er því endurflutt nú enda er um að ræða alvarlegt misrétti sem virðist aukast í þjóðfélaginu og því full ástæða til að bregðast við.

Margt bendir til að það færist í aukana að stjórnendur á vinnustöðum leggi áherslu á það við mannaráðningar að ráða fremur ungt fólk til starfa en eldra fólk, jafnvel þótt síðarnefndi hópurinn búi að lengri starfsreynslu. Sums staðar er jafnvel gengið lengra, eldra fólki sagt upp störfum til að rýma fyrir þeim sem yngri eru.

Jafnhliða þessari þróun hefur verið losað um ráðningarfestu þar sem hún hefur verið hvað traustust, þ.e. hjá opinberum starfsmönnum. Sumar stofnanir og fyrirtæki hafa jafnvel gengið svo langt að taka þá stefnu upp að segja fólki upp störfum þegar það hefur náð tilteknum aldri, langt innan við þau aldursmörk sem lög og samningar kveða á um. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þegar lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt árið 1996 var tekin upp sú nýbreytni að ráða embættismenn aðeins til fimm ára í senn. Þetta á einnig við um heilar starfsstéttir og má þar nefna lögreglumenn, tollverði og fangaverði.

Þetta hefur valdið óöryggi hjá eldra fólki og ekki að ástæðulausu. Mikilvægt er að fram fari endurskoðun á lögum með það fyrir augum að tryggja stöðu einstaklinga þannig að þeir verði ekki látnir gjalda aldurs síns á vinnustað. Þannig yrðu til dæmis mjög veigamikil rök að liggja fyrir fengju þeir launamenn sem starfa samkvæmt framangreindri fimm ára reglu ekki endurráðningu. Mikilvægt er að endurskoðun laganna fari fram í nánu samstarfi við samtök launafólks.

Eins og ég gat um virðist það færast í aukana að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað. Þessi fylgifiskur æskudýrkunar er víða við lýði í atvinnulífinu og ég held að flest okkar þekki dæmi um það þegar einstaklingum er vísað út á guð og gaddinn, fólki sem starfað hefur í langan tíma, jafnvel áratugum saman, er skyndilega sagt upp störfum áður en lífeyrisaldri er náð.

Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á þessu nauðsynjamáli nú í ljósi þeirrar uppstokkunar sem fyrirsjáanleg er í bankakerfinu. Þar eiga í hlut mjög fjölmennir vinnustaðir, stórir kvennavinnustaðir. Það er augljóst að ef af sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka verður án þess að sérstaklega sé hugað að hag starfsmanna hvað þetta snertir þá er sú hætta fyrir hendi að fjöldi starfsfólks á miðjum aldri eða þaðan af eldra verði látinn gjalda þess og sagt upp störfum. Ég held að það sé nauðsynlegt að reyna að stemma stigu við þessu og þess vegna brýnt að þessi þáltill. fái skjóta afgreiðslu og kannað hvort hægt sé með einhverjum hætti að tryggja í lögum að fólki verði ekki mismunað með þessum hætti.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það er ekki hlaupið að því verki. En fyrst er að hafa viljann og síðan er að finna veginn.