Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:37:50 (680)

2000-10-17 17:37:50# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þáltill. þá sem hér er til umræðu, um að hugað verði að starfshögum eldra fólks. Það má ekki verða sjálfgefið að sú reynsla og þekking sem eldra fólk hefur aflað sér og hefur nýst því vel í starfi, ekki síður en fyrirtækjum sem það hefur unnið hjá, verði fyrir borð borin eins og reyndar hefur verið rík tilhneiging til á undanförnum árum. Starfsmenn hafa verið látnir víkja úr störfum sínum aðeins vegna árafjöldans en ekki vegna þess að þeir væru ekki hæfur vinnukraftur. Ég held að efni þessarar tillögu sé mjög þarft og umhugsunarvert í þjóðfélagi okkar og eðlilegt að málið verði tekið til skoðunar. Meta þarf hvort ekki megi haga málum á annan hátt en þróast hefur á undanförnum árum, að störf fólks þegar það kemst á fullorðinsár séu beinlínis skorin niður eftir ákvörðun fyrirtækjanna en lítið litið til þess starfsaldurs, kunnáttu og hæfni sem eldra fólk getur miðlað yngri starfsmönnum.