Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:39:15 (681)

2000-10-17 17:39:15# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð um þessa þáltill. sem ég fagna að hafi komið fram og vona að fái bæði jákvæða og skjóta afgreiðslu.

Hér er ekki eingöngu verið að tala um starfslok heldur starfsöryggi fólks sem komið er yfir fertugt. Það er einkennilegt að segja þetta en æskudýrkunin virðist allsráðandi, að vísu misjafnlega mikið eftir fyrirtækjum en í mörgum fyrirtækjum svo ráðandi að fólk á allra besta aldri finnur fyrir óöryggi og missir jafnvel stöðu sína.

Það er ótrúlegt að menn sem hafa staðið sig vel í vinnu og búa að mikilli starfsreynslu og menntun skuli fyrir það eitt að vera 50 ára eða á besta aldri missa atvinnuna af þeim sökum einum. Eins er alvarlegt hversu oft það tekur langan tíma fyrir þessa einstaklinga að fá vinnu aftur. Ekkert bendir til að þar ráði nokkuð annað en það að viðkomandi sé talinn of fullorðinn, kominn á sextugsaldur eða á miðjum aldri. Það þarf að tryggja starfsöryggi þeirra sem standa sig vel í vinnu og því fagna ég þessari þáltill.