Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:41:14 (682)

2000-10-17 17:41:14# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:41]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég fagna fram kominni þáltill. um að komið verði í veg fyrir uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs. Aldur er mjög afstæður. Sumir eru fæddir gamlir en aðrir eru ungir til níræðs. Ungt fólk er alls maklegt í því að fá góð störf en það er orðið ansi furðulegt þjóðfélag sem lítur á þá sem eru komnir yfir fertugt sem ruslahaugamat og leyfir þeim ekki að sinna þeim störfum sem þeir hafa áhuga á að vinna.

Það er mikill mannauður í eldra fólki. Það hefur mikla reynslu sem það getur miðlað til annarra og þjóðfélagið hefur ekki efni á að kasta frá sér þeirri þekkingu sem það býr yfir. Þar sem ég þekki til, t.d. í umönnunarstörfum, eru eldri konur með áratuga starfsreynslu allra besti starfskraftur sem hægt er að hugsa sér. Yfirleitt taka þær ekki veikindafrí, þær þurfa ekki að vera heima yfir veikum börnum og eru afar trúar sínum vinnustað. Ég er þeirrar skoðunar að sveigjanleg starfslok séu það sem koma skal og fólk eigi að fá að ráða því að miklu leyti hvenær það hættir störfum. Sumir eru tilbúnir að hætta í kringum 65 ára aldur en ekki aðrir sem hafa mikið starfsþrek. Við vitum að margir hafa starfsþrek jafnvel langt yfir áttrætt og þetta fólk á að fá að njóta sín í starfi.