Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 17:50:53 (684)

2000-10-17 17:50:53# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með flm. tillögunnar, Ögmundi Jónassyni, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og tek undir að það er einnig um alvarlegt misrétti að ræða þegar fólki er sagt upp sökum aldurs.

Ég vil taka upp nokkrar af þeim hugmyndum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir varpaði fram áðan. Ég tel nefnilega að margar leiðir séu að því markmiði að útrýma misrétti vegna aldurs. Ég tel að það sé góð hugmynd að einhvers konar nefnd verði falið að fara yfir markmið og leiðir því að það eru nefnilega margar leiðir að þessu sama markmiði. Ég vil benda á í þessu sambandi t.d. nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum sem hefur að mínu viti orðið mjög vel ágengt í því að vekja fólk til vitundar um ákveðið misrétti í þjóðfélaginu sem snýr að konum.

Ég tel t.d. að rannsókn eða samantekt eins og sú sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að gæti orðið góður undanfari að víðtækari opinberri umræðu um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði.