Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:03:25 (692)

2000-10-17 18:03:25# 126. lþ. 11.11 fundur 12. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Út af þeim umræðum sem fóru fram áðan og þeim vangaveltum sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason fór með úr þessum ræðustól, vil ég leggja þau orð inn í umræðuna áður en henni lýkur að það eru fjöldamargar aðferðir til þess að finna starfsöryggi fyrir fólk. Það getur bæði tengst starfsaldri hjá viðkomandi fyrirtæki eða starfsaldri í viðkomandi starfsgrein sem færist á milli fyrirtækja eftir því hvað fólk hefur starfað, hvort fólk hefur verið iðnaðarmenn eða verkamenn. Það er líka hægt að tengja saman aldur og starfsaldur. Það er kannski það sem ég held að menn þyrftu virkilega að velta upp, hvort ekki á að tengja saman sérstaklega þegar réttindi manna sem eru komnir t.d. yfir fimmtugt eða þar yfir með aldri og starfsaldri þannig að uppsagnarfrestur atvinnurekandans sé mun lengri en uppsagnarfrestur launþegans. Ég held að þetta sé virkilega umhugsunarefni.

Við vitum vel að þau viðhorf hafa þróast í sumum fyrirtækjum að það þykir gott, ekki bara jákvætt út á við heldur þykir gott að vera með ungt starfsfólk. Það þykir ,,selja`` fyrirtækið að vera með ungt starfsfólk á sínum snærum. Jafnframt er ungt fólk vel menntað sem betur fer. En í nútímaþjóðfélagi er það ákveðin ímynd fyrirtækjanna að gera þau unglegri í útliti, ef það er hægt að orða það þannig, með því að hafa tiltölulega ungt starfsfólk og þeir sem eru eldri og eftir eru í störfum eru kannski settir til hliðar þannig að þeir eru ekki beinlínis til hliðar í starfi heldur eru þeir kannski ekki alveg sýnilegir í aðkomu að fyrirtækinu, t.d. fyrirtæki í þjónustugreinum.

Þetta vildi ég sagt hafa. Ég held að það megi finna þessu farveg og væri eðlilegt að það væri litið bæði til starfsaldurs og aldurs þegar menn kæmu fram yfir ákveðinn aldur þannig að í raun og veru væri örðugra að segja fólki upp þegar það væri komið yfir ákveðinn aldur en ella væri og það hefði lengri aðdraganda til þess að mæta þeim breytingum.