Smásala á tóbaki

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:31:49 (698)

2000-10-17 18:31:49# 126. lþ. 11.12 fundur 14. mál: #A smásala á tóbaki# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:31]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Sem meðflutningsmaður þessarar tillögu finnst mér skylt að leggja þessu máli lið. Eins og fram kemur í grg. er hér um uggvænlegar tölur að ræða. Áætlað er að tóbakskaup ungmenna nemi 110 millj. kr. og þar af hafi nemendur í 8. bekk, 13 ára, keypt sígarettur fyrir rúmlega 12 millj. kr. Þetta eru ótrúlegar tölur.

Eins og fram kemur í greinargerð þáltill. hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sett tóbaksvarnir sem eitt af forgangsverkefnum stofnunarinnar og er þar fremst á lista að hefta sölu tóbaks til barna og unglinga. Hér er farin sú leið að leggja til að í lögum um tóbaksvarnir og í heilbrigðisreglugerð verði sett ákvæði um að til þess að selja tóbak þurfi sérstakt leyfi.

Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að tóbaksvarnanefnd, Reykjavíkurborg og Verslunarmannafélag Reykjavíkur hafa hrundið af stað átaki til að stöðva ólöglega sölu tóbaks til barna og unglinga í Reykjavík en kannanir hafa sýnt að 70% útsölustaða tóbaks selja börnum tóbak þrátt fyrir ákvæði tóbaksvarnalaga. Ég tel þetta átak mjög mikilvægt og vona að önnur sveitarfélög fylgi þessu fordæmi eftir.

Herra forseti. Allir deyja einhvern tímann en reykingar auka dánarlíkur verulega. Talið er að fimmta hvert dauðsfall sé af völdum reykinga. Þannig deyr að meðaltali einn Íslendingur á hverjum degi vegna reykinga og afleiðingar reykinga eru eitt helsta heilbrigðisvandamálið í dag.

Í Tímariti hjúkrunarfræðinga, í grein eftir Nönnu Friðriksdóttur, segir um lungnakrabbamein, með leyfi forseta:

,,Lungnakrabbamein er annað algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi en það er öfugt við Norðurlöndin í heild þar sem það er í þriðja sæti. Árlega greinist nú að meðalali 51 kona með lungnakrabbamein og hefur aukning á árlegu nýgengi þess verið mest miðað við aðrar tegundir krabbameina, úr 6,6 í 32,0. Þannig hefur tíðni lungnakrabbameins meira en fjórfaldast hjá konum á fjórum áratugum. Meðalaldur kvenna sem greinast með lungnakrabbamein er 67 ár og á mismunandi aldursskeiðum er aldursbundið nýgengi mest hjá þeim sem eru 70 ára og eldri. Miðað við karla hafa konur hærri nýgengi í báðum aldursflokkunum yngri en 70 ára og er það talið skýrast af auknum reykingum kvenna eftir síðari heimsstyrjöldina.

Hjá konum er nýgengi lungnakrabbameins hæst í Reykjaneskjördæmi og í Reykjavík en lægst á Vestfjörðum. Árlega deyja nú að meðaltali 46 konur vegna lungnakrabbameins og þar af er rúmlega helmingur yngri en 70 ára. Dánartíðni af völdum lungnakrabbameins hjá konum hefur aukist um 20% á síðustu 20 árum en staðið í stað hjá körlum. Lungnakrabbamein er mannskæðasta krabbameinið hjá báðum kynjum og fimm ára lífshorfur eru um 5--12%. Í árslok árið 1998 voru 97 konur á lífi sem greinst hafa með lungnakrabbamein.``

Þetta eru ógnvænlegar tölur og ljóst er að þeim mun yngri sem menn byrja að reykja, þeim mun meiri er áhættan. Þeir þættir sem greinilega hafa áhrif á að börn og unglingar byrja að reykja er aðgangur að tóbaki, verð á tóbaki og þrýstingur frá félögum, auglýsingum, tískuheiminum, kvikmyndum, fyrirmyndum og umhverfinu almennt. Einnig virðast stúlkur með lítið sjálfsálit og þær sem álíta sig ekki hafa stjórn á heilsu sinni vera líklegri til að byrja að reykja. Forvarnir þurfa því að beinast að mörgum þáttum. Þar skiptir máli þátttaka heimila, skóla og íþróttafélaga þar sem börn fá sitt uppeldi.

Unglingur sem byrjar að reykja eða fikta við reykingar ætlar sér ekki að verða reykingamaður alla ævi. Í nýlegri rannsókn þar sem kannað var af hverju unglingar byrja að reykja kom m.a. í ljós að þeir sem byrjuðu ætluðu sér ekki að verða reykingamenn. Unglingurinn gerir sér hvorki grein fyrir afleiðingunum né hve sterk tóbaksfíknin er. Afleiðingar reykinga á hjarta- og æðakerfi koma oft ekki í ljós fyrr en mörgum árum eftir að viðkomandi byrjar að reykja og unglingurinn er ekkert að velta sér upp úr því hvort hann fái kransæðastíflu um miðjan aldur. Það er svo óralangt frá unga fólkinu. Áhyggjulaus unglingur hefur ekki miklar áhyggjur af því hvernig heilsa hans verður um fertugt.

Í riti Hjartaverndar kemur fram að á árunum 1991--1995 dóu að meðaltali 1.780 Íslendingar árlega og samkvæmt útreikningum Hjartaverndar má áætla að 370 þeirra hafi dáið af völdum sjúkdóma sem rekja má til reykinga. Hlutfallið er hátt á aldursbilinu 35--69 ára og þá má rekja nær þriðja hvert dauðsfall hjá fólki í blóma lífsins til reykinga.

Herra forseti. Þetta eru óhugnanlegar tölur en þeir sem hætta að reykja, á hvaða aldri sem er, hafa í raun heilmikla möguleika á að koma heilsu sinni í betra horf. Ég tel því að þetta mál sé mjög nauðsynlegt og að hugað verði að því að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu.