Orkusjóður

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 18:45:18 (701)

2000-10-17 18:45:18# 126. lþ. 11.13 fundur 15. mál: #A Orkusjóður# (dreifikerfi hitaveitna) frv., Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Flm. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 49/1999, um Orkusjóð.

Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að veita hitaveitum styrk til stækkunar á dreifikerfi í þeim tilfellum þegar notendur eru of fáir til þess að bera stofnkostnað, enda megi ætla að slík framkvæmd styrki atvinnulíf, þjónustu við ferðamenn og uppbyggingu sumarbústaðalanda til lengri tíma litið.

Lög um Orkusjóð, nr. 49 19. mars 1999, skilgreina hlutverk sjóðsins. Í 1. gr. segir: ,,Orkusjóður er eign ríkisins og ber það ábyrgð á skuldbindingum hans. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum iðnaðarráðherra.

Í 2. gr. segir:

,,Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda Íslands með fjármögnun grunnrannsókna á sviði orkumála annars vegar og fjárhagslegum stuðningi við ýmsar framkvæmdir og verkefni hins vegar.

Úr Orkusjóði er heimilt:

1. að fjármagna yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins samkvæmt áætlun sem sjóðurinn gerir til fimm ára á grunni rannsóknaráætlana Orkustofnunar; áætlunina skal endurskoða árlega og skal hún hljóta samþykki ráðherra,

2. að styrkja gerð yfirlitsathugana á möguleikum til að auka hlutdeild innlendra orkulinda í orkubúskap þjóðarinnar,

3. að veita opinberum aðilum, félögum og einstaklingum lán til að leita og afla jarðvarma með jarðvísindalegum forrannsóknum, jarðborunum og vinnslurannsóknum til að meta árangur borana,

4. að styrkja sérstök verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talda fræðslu og upplýsingastarfsemi, svo og hagrænar athuganir í orkumálum og umhverfisathuganir í tengslum við orkurannsóknir,

5. að veita fyrirtækjum eða einstaklingum styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar sem ætla má að leiði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.``

Það er einmitt hér sem lagt er til að settur verði inn töluliður sem er svohljóðandi samkvæmt frv.: ,,að veita hitaveitum styrk til stækkunar á dreifikerfi í þeim tilfellum þegar notendur eru of fáir til þess að bera stofnkostnað, enda megi ætla að slík framkvæmd styrki atvinnulíf, þjónustu við ferðamenn og uppbyggingu sumarbústaðalanda til lengri tíma litið.``

Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Frumvarpið miðar að því að Orkusjóði verði gert kleift að styrkja hitaveitur til þess að stækka dreifikerfi sín. Víða um landið háttar þannig til að hitaveitur geta með tiltölulega litlum tilkostnaði stækkað dreifikerfi sín en í mörgum tilfellum eru notendur of fáir til þess að bera stofnkostnað við veitu. Með því að gera Orkusjóði kleift að veita framlög til stofnkostnaðar má ætla að víða um land skapist möguleikar á uppbyggingu í atvinnulífi, svo sem þjónustu við ferðamenn og uppbyggingu sumarbústaðalanda.

Ég nefni sérstaklega í þessu sambandi þær veitur þar sem ég þekki til en það er t.d. Hitaveita Öxarfjarðar. Þar er möguleiki á því bara með 15 km lögn að lengja dreifikerfið þannig að það nái inn í Kelduhverfi, í Ásbyrgi. Ég nefni sem dæmi úr Eyjafirði þar sem möguleiki er á því að samtengja Hitaveitu Dalvíkur, Hitaveitu Árskógsstrandar og Hitaveitu Akureyrar með tiltölulega litlum tilkostnaði og ég nefni sem dæmi hitaveitur á Suðurlandsundirlendinu þar sem slíkt getur vel komið til greina.

Það er alveg ljóst að framlög til framkvæmda af þessu tagi eru ef til vill einna best fallin til þess að styrkja byggð á viðkomandi svæðum. Þau gera það mögulegt að menn sjái fyrir sér uppbyggingu á iðnaði, á þjónustu sem ella hefði ekki átt sér stað og styrkja þannig á óbeinan hátt byggð á viðkomandi landsvæðum.

Eins og Orkusjóðurinn er byggður upp í dag fær hann framlög úr ríkissjóði. Orkusjóður fær árlega framlög úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum til ýmissa verkefna og þessum framlögum er m.a. ráðstafað til styrkveitinga samkvæmt orkulögum, nr. 58/1967, og lögum um Orkusjóð, nr. 49/1999. Á fjárhagsárinu 1999 voru framlög ríkissjóðs sem hér segir:

Framlag vegna nýtingar innlendra orkugjafa 16,8 millj. kr., framlag til jarðhitaleitar 6 millj., framlag til reksturs Orkusjóðs rúmar 3 millj., framlag vegna notenda utan samveitna 2 millj. og framlag vegna virkjunarrannsókna 50 millj.

Athyglisvert er að frá 1998 hafa þessi framlög stóraukist. Þau voru 1998 rúmlega 26 millj. en eru samkvæmt reikningum árið 1999 tæpar 78 millj.

Í framhaldi af breytingu á lögum um Orkusjóð vil ég boða hér, virðulegi forseti, úr ræðustól að ég mun jafnframt flytja þáltill. um að Orkusjóði verði falið að ráðstafa framlögum ríkisins til hitaveitna á köldum svæðum. Þannig háttar til að á síðasta ári réð stjórn Orkusjóðs framkvæmdastjóra sem staðsettur er á Akureyri og vegna þess að Orkusjóður heldur um og fylgist með öllum grunnrannsóknum sem verið er að fara í, og eins og fram kemur í lögunum um Orkusjóð innir hann af hendi framlög til vissra þátta, þá er það í mínum huga ljóst að þekkingin á málinu er helst til staðar hjá stjórn Orkusjóðsins og hjá framkvæmdastjóranum og tel ég því mikilvægt að Orkusjóði verði falið að ráðstafa framlögum ríkisins t.d. til hitaveitna á köldum svæðum og á grunni þessara brtt. sem eru settar hér fram með breytingu á lögum nr. 49/1999.

Virðulegi forseti. Að lokinni umræðu um málið legg ég til að frv. verði vísað til hv. iðnn. til umfjöllunar.