Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 13:38:52 (706)

2000-10-18 13:38:52# 126. lþ. 13.1 fundur 32. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur með nýlegri skipun sinni í stöðu hæstaréttardómara gengið fram hjá þremur konum með mikla og farsæla reynslu af dómarastörfum. Það er skoðun mín og margra fleiri að með því hafi dómsmrh. brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og markmiðum sem hennar eigin ráðuneyti hefur sett sér í jafnréttismálum. Þetta tel ég vera alvarleg embættisafglöp og högg fyrir jafnréttisbaráttuna á Íslandi og það er kaldhæðnislegt að það skuli vera kona í starfi dómsmálaráðherra sem þannig stendur að málum.

Ég vil rifja upp fyrir hæstv. dómsmrh. túlkun núv. hæstaréttardómara, Guðrúnar Erlendsdóttur, á jafnréttislögunum fyrir liðlega tveimur áratugum. Þessi hæstaréttardómari túlkaði þá jafnréttislög með þeim hætti að ef sú staða kemur upp að karl og kona sæki um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er allsráðandi og bæði tvö hafa sömu hæfileika og menntun til að bera, þá skuli veita þeim aðila starfið sem er af því kynferði sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein. Ástæða er til að undirstrika að Hæstiréttur hefur lagt til grundvallar sömu meginreglu á túlkun jafnréttislaganna. Ákvörðun núv. dómsmrh. við skipun í embætti hæstaréttardómara gengur þvert á þá meginreglu sem dómstólar landsins hafa unnið eftir.

Ég vil líka vitna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem gildir til loka ársins 2000, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Það er stefna ríkisstjórnarinnar að konur og karlar skuli njóta jafnra tækifæra og hafa sömu möguleika til áhrifa í samfélaginu.``

Jafnframt segir:

,,Íslenskum stjórnvöldum ber, á grundvelli laga, sem og vegna alþjóðlegra sáttmála sem þau hafa staðfest, að sýna fordæmi og eiga frumkvæði að aðgerðum til að auka jafnrétti kynjanna.``

Herra forseti. Hvernig sem á málið er litið og hvaðan sem að því er komið er afstaða hæstv. dómsmrh. í málinu óskiljanleg og gengur þvert á jafnréttislög, framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar, jafnréttisáætlun dómsmrn., meginreglur sem Hæstiréttur hefur lagt til grundvallar við túlkun jafnréttislaga og alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að í jafnréttismálum. Því hef ég leyft mér að leggja eftirfarandi spurningar fram til hæstv. dómsmrh.:

Hvernig rökstyður ráðherra það að nýleg skipun í starf hæstaréttardómara sé ekki brot á jafnréttislögum?

Hvaða ástæður lágu til grundvallar þeirri skipun?

Hafa ráðuneytið og undirstofnanir þess sett sér jafnréttisáætlanir til að vinna eftir?

Hvernig hljóða þær jafnréttisáætlanir?

Hver er ástæða þess að auglýsing um umrætt starf hæstaréttardómara var ekki í samræmi við verkefnaáætlun ráðuneytisins?