Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 13:41:51 (707)

2000-10-18 13:41:51# 126. lþ. 13.1 fundur 32. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. er efnismikil og því erfitt að svara henni á þeim tíma sem hér er til umráða en ég skal reyna að gera mitt besta.

Í fyrsta lagi er spurt um rökstuðning fyrir því að skipunin sé ekki brot á jafnréttislögum. Núgildandi jafnréttislög, nr. 96/2000, hafa að markmiði að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. ,,Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.`` Síðan er talið upp í nokkrum liðum hvernig markmiði laganna skuli náð og er þar í fyrsta lagi sagt að gæta skuli jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins.

Í því máli sem hér um ræðir var ekki um brot á þessum ákvæðum að ræða. Fyrir liggur að umsækjendurnir fjórir voru allir hæfir að mati Hæstaréttar en þar með er ekki sagt að þeir væru allir jafnhæfir. Það var ráðherra sem gerði hið endanlega mat og niðurstaða mín var sú að einn umsækjendanna, þ.e. sá sem valinn var, væri langhæfastur.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hvaða ástæður lágu til grundvallar ákvörðun um skipunina, með vísan í 4. mgr. 24. gr. jafnréttislaga?`` Eftir að hafa farið vandlega yfir feril umsækjanda í námi og starfi var það tvímælalaust í mínum huga að sá umsækjandi sem ég valdi hefði yfirburði yfir aðra umsækjendur. Hann er með hæsta lagapróf í sögu lagadeildar Háskóla Íslands, hann var annar umsækjendanna sem stundað hafði framhaldsnám við erlendan háskóla, hann er sérmenntaður á sviði skattaréttar og með starfsreynslu á því sviði. Hann hefur verið lykilmaður í stjórnsýslu ríkisins um árabil og þekkir því til löggjafar á því sviði og framkvæmdar hennar betur en aðrir umsækjendur. Hann hefur stýrt samningsgerð við önnur ríki og hefur mikla innsýn í alþjóðarétt og þekkingu á þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem á íslenska ríkinu hvíla. Að þessu samanlögðu taldi ég ljóst að skipun Árna Kolbeinssonar gæti ekki brotið í bága við bannið í 24. gr. jafnréttislaganna.

Í þriðja lagi er spurt hvort ráðuneytið og undirstofnanir þess, og þá hvaða, hafi sett sér jafnréttisáætlanir til að vinna eftir. Jafnréttisáætlun ráðuneytisins kemur fram í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sem fyrirspyrjandi hv. vitnar til í síðasta lið fyrirspurnar sinnar. Eftir henni hefur verið unnið.

Til viðbótar er rétt að greina frá því að um nokkurt skeið hefur verið unnið að gerð sérstakrar jafnréttisyfirlýsingar ráðuneytisins þar sem til viðbótar almennum ákvæðum er m.a. fjallað um kynferðislega áreitni á vinnustað og viðbrögð við kvörtunum um slíkt af hálfu stjórnenda.

Í fjórða lagi er spurt hvernig ákvæði jafnréttisáætlunar ráðuneytisins hljóði að því er varðar jafnan hlut kvenna og karla á vinnumarkaði. Hér verður að vísa til inngangsins að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 1998--2001 sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til í 5. lið. Þar er lögð áhersla á jöfn tækifæri og jöfn áhrif kvenna og karla í samfélaginu.

Í fimmta lagi er spurt hvers vegna umrætt starf hæstaréttardómara hafi ekki verið auglýst í samræmi við verkefna\-áætlun ráðuneytisins að því er varðar hvatningu til kvenna, að þær jafnt sem karlar sæki um starfið. Því er til að svara að ekki þótti viðeigandi að hafa slíka hvatningu í auglýsingu um starf hæstaréttardómara og því var gerð undantekning frá hinni almennu reglu.

Hér er um að ræða eitt af virðulegustu embættum landsins og leitað er eftir lögfræðingum sem yfirburði hafa á sviði lögfræðiþekkingar. Það þótti því ekki viðeigandi að hafa sérstaka hvatningu í auglýsingunni, hvorki að því er varðar kyn eða annað. Þótt konur væru ekki sérstaklega hvattar til að sækja um starfið var niðurstaðan engu að síður sú að þrjár konur sóttu um en aðeins einn karlmaður. Ég tel það sérstaklegt gleðiefni að þrjár konur hafi í þetta sinn sótt um starfið.

Ætla verður að nánast allir þeir sem starfa við úrlausnarefni á sviði lögfræði við dómstóla, lögmennsku eða í stjórnsýslu hafi tekið eftir eða frétt af auglýsingunni enda er skipun hæstaréttardómara sígilt umræðuefni hjá þeim starfsstéttum í hvert sinn sem dómaraskipti eru fyrirsjáanleg.