Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 13:47:50 (709)

2000-10-18 13:47:50# 126. lþ. 13.1 fundur 32. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ekki mátti hvetja konu til að sækja um þetta embætti er auðvitað augljós. Það stóð aldrei til að ráða konu í þetta embætti. Það var löngu búið að ákveða hver ætti að hljóta embættið og hafði reyndar kvisast út að það þýddi ekkert að sækja um það. Þannig lá í málinu. Ég tek undir það sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagði áðan. Það er auðvitað vegna sérþekkingar viðkomandi á fiskveiðistjórnarmálunum og þess að hann er höfundur að ýmsum lausnum þar sem í flestum tilfellum mundi vera álitið að væri mönnum fjötur um fót. Þarna telja menn það helst til kostanna að hann hafi komið að slíkum málum, a.m.k. telja menn svo í ríkisstjórninni. Þetta mál verður auðvitað hæstv. ráðherra til ævarandi skammar vegna þess að hún er að brjóta reglur ráðuneytis síns og reglur um jafnrétti kynjanna sem menn hafa sett á undanförnum árum. Það er mikið umhugsunarefni að það skuli einmitt vera kona sem gerir það.