Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 13:56:43 (716)

2000-10-18 13:56:43# 126. lþ. 13.1 fundur 32. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Mér finnst afar ánægjulegt að sjá hve margir hv. þm. hafa áhuga á jafnréttismálum og sannarlega fagna ég umræðu um þau mál. En ég vil að það komi skýrt fram, ég hef sagt það áður á opinberum vettvangi, að ég er sammála þeim sjónarmiðum að æskilegt sé að konum fjölgi í Hæstarétti. Ég er sannfærð um að svo mun fara á næstu árum, enda eðlileg þróun í samfélaginu og í samræmi við fjölgun kvenna í lögfræðingastétt og þann árangur sem þær hafa náð í störfum sínum.

Í þetta sinn gerðist sá einstæði atburður að þrjár konur sóttu um stöðuna. Það er í fyrsta skipti sem það gerist þannig að auglýsingin hafði engin áhrif í þessu sambandi, hv. fyrirspyrjandi. Það skipti ekki máli hvort þar væri sérstök hvatning til kvenna. Ég tel að það sé gleðiefni. Þessar þrjár konur eru þar að auki, og það hef ég áður margsagt, mjög hæfar og frambærilegar og vafalaust hefði það verið pólitískt einfaldara fyrir mig að velja konu í þetta sinn. En skylda mín var að velja hæfasta umsækjandann. Það hafði ég að leiðarljósi eftir bestu samvisku við ákvörðun mína.

Ég get ekki komist hjá því, herra forseti, að nefna það hér í síðara svari mínu að eitt af því sem ráðherra þarf að taka tillit til við svo vandasama ákvörðun sem hér er til umræðu er samsetning Hæstaréttar. Þegar litið er á skipan Hæstaréttar kemur sá sem nú er skipaður í stað dómara sem áður var prófessor í lögfræði. Ef litið er til þeirra átta dómara sem sitja í réttinum, þegar Árni Kolbeinsson hefur þar störf, eru fjórir skipaðir úr hópi héraðsdómara; einn starfaði um árabil sem dómarafulltrúi og héraðsdómari en var prófessor í lagadeild þegar hann var skipaður hæstaréttardómari; einn dómari var dósent í lagadeild er hann var skipaður hæstaréttardómari og þá eru ótaldir tveir dómarar sem áður voru lögmenn. Í Hæstarétt hafa oftast valist dómarar úr hópi héraðsdómara, lögmanna og kennara við lagadeild Háskólans. Þetta þarf að sjálfsögðu að hafa í huga við slíkt val.