Umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 13:59:16 (717)

2000-10-18 13:59:16# 126. lþ. 13.2 fundur 39. mál: #A umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þegar umferðaröryggisáætlun var sett á hinu háa Alþingi 1996 hafði hún það markmið að fækka alvarlegum umferðarslysum um 20% á áætlunartímanum, þ.e. fyrir árslok 2000. Nú liggur því miður fyrir, herra forseti, að þróunin undanfarin ár og á þessu ári er alls ekki með þeim hætti sem vonir stóðu til og markmið áætlunarinnar gera ráð fyrir.

[14:00]

Þetta er sérstaklega sláandi því miður þegar skoðaður er fjöldi dauðaslysa. Þar er þróunin þannig ef litið er yfir tölur frá árinu 1994 að telja að þá eru látnir 12 í 12 slysum, á árinu 1995 eru látnir 24 í 19 slysum, á árinu 1996 10 í 10 slysum, á árinu 1997 15 í 14 slysum, á árinu 1998 27 í 27 slysum, á árinu 1999 21 í jafnmörgum slysum og það sem af er þessu ári, miðað við 18. október, eru látnir 23 í 17 slysum.

Herra forseti. Í öllu falli er ljóst hvað varðar markmiðið um fækkun dauðaslysa þá hafa þau ekki náðst nema síður sé. Það er leitun að þriggja ára tímabili þar sem tölur er jafnóhagstæðar og þær eru nú á árunum 1998 til og með yfirstandi ári og er því þó ekki lokið.

Ef litið er til alvarlegra slysa þá hef ég ekki tölur yfir þau nema til og með ársins 1998 eins og þau eru flokkuð samkvæmt alþjóðlegri flokkun en þar er sömuleiðis ljóst að ekki hefur náðst neinn umtalsverður árangur ef skoðuð eru öll umferðarslys þar sem meiðsli eða slys hafa orðið á fólki og er um mjög svipaðan fjölda að ræða allt þetta árabil. Þau eru rétt í kringum 1.000 og eru þá dauðaslys væntanlega meðtalin. Þau voru 1.058 á árinu 1995 og voru 1.043 á árinu 1999 þannig að ef endaárin eru tekin þá hefur þar sömuleiðis ekki náðst mikill árangur.

Herra forseti. Ég held að við hljótum af þessum ástæðum að spyrja hvar við séum á vegi stödd. Ég tel að þær niðurstöður sem liggja fyrir kalli á að farið verði yfir þessi mál öll á nýjan leik. Hvað hefur ekki tekist eins og til var ætlast í sambandi við fræðslu, umferðarlöggæslu og aðra slíka hluti. Og það er nærtækt að spyrja hvort sá mikli niðurskurður á fjárveitingum til löggæslu og umferðarlöggæslu, sem er staðreynd frá undanförnum og yfirstandandi ári, sé þarna að einhverju leyti orsakavaldur.

Ég hef því leyft mér að spyrja, herra forseti, hæstv. ráðherra tveggja spurninga sem varða annars vegar endurskoðun umferðaröryggisáætlunar og hins vegar hvort vænta megi sérstakra aðgerða af þessu tilefni.