Umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:15:13 (724)

2000-10-18 14:15:13# 126. lþ. 13.2 fundur 39. mál: #A umferðaröryggisáætlun og umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna að afar brýnt er að við leggjumst á eitt um að sporna gegn slysum í umferðinni, enda hefur það verið eitt helsta áherslumál mitt frá því að ég tók við embætti dómsmrh.

Hv. fyrirspyrjandi óskaði eftir nánari upplýsingum. Ég verð að benda honum á að fyrirspurn hans er nú nokkuð takmörkuð. Ég held að við þyrftum mun lengri tíma til þess að fara yfir allt það sem hefur verið gert og það sem stendur til að gera en ég er auðvitað alveg sammála hv.þm. um að það þarf virkilega að snúa við þessari öfugþróun.

Hv. þm. Kristján Möller sá ástæðu til að gera að umtalsefni svonefndar pappalöggur. Ég get glatt hv. þm. með því að sú hugmynd er að vísu ekki frá mér komin, en það er miður að það umferðarátak sem fjórir lögreglustjórar standa nú í fyrsta skipti fyrir skuli drukkna í umræðu sem þessari. Hv. þm. Ágúst Einarsson mun fljótt sjá að það verður margt til viðbótar því sem nú þegar hefur verið gert. Hann getur þá vakið athygli á því á heimasíðu sinni.

Hv. fyrirspyrjandi hélt því fram að til stæði að skera niður fé til umferðarlöggæslu. Í fjárlögum er hins vegar gert ráð fyrir eflingu vegaeftirlits með auknum framlögum til umferðardeildar ríkislögreglustjóra. Þar er jafnframt hugsað til þess að gera embættinu kleift að styrkja lögregluembætti um land allt í tengslum við umferðareftirlit og viðbrögð við alvarlegum slysum. Fjárlagafrv. felur þannig í sér framlög til umferðarlöggæslu, ekki niðurskurð.

Ég lýsti í fyrri ræðu minni þeirri vinnu sem fer fram í starfshópi sem ég hef skipað. Unnið er að því að koma upp svokölluðu ökugerði, æfingarsvæði fyrir ökunema sem verður mikið framfaraspor í umferðarmálum. Það er mjög margt sem er á döfinni og ýmsar tillögur munu koma fram fljótlega. Það er því engin lognmolla í umferðaröryggismálunum heldur er mikið starf í gangi og ég legg áherslu á að þetta eru fyrstu skrefin. Vitaskuld er mikið starf óunnið, enda eru umferðarmál langtímaverkefni og á ábyrgð okkar allra. Við þurfum því þjóðarvakningu.