Hlutverk ríkislögreglustjóra

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:27:24 (729)

2000-10-18 14:27:24# 126. lþ. 13.3 fundur 86. mál: #A hlutverk ríkislögreglustjóra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég lagði af stað í þessa umræðu með það að markmiði að reyna að upplýsa og fá það skýrt hvort fallið hafi verið frá þeim grunnhugmyndum sem lagt var upp með þegar embætti ríkislögreglustjóra var komið á laggirnar. Ég vil líka segja að með þessari umræðu er á engan hátt verið að veitast að embætti ríkislögreglustjóra, enda starfa þar mjög hæfir menn.

Hins vegar virðist mér vera ljóst að hæstv. dómsmrh. hefur algjörlega snúið af þeirri braut sem fyrirrennari hennar lagði, þ.e. að leggja þetta upp sem lítið embætti, stjórnsýsluembætti sem tæki við verkefnum frá ráðuneytinu. Allsherjarnefnd var í heimsókn hjá ríkislögreglustjóra í vikunni og þar hefur sem sagt lítið sem ekkert verið fært til af verkefnum. Þrátt fyrir það hefur kostnaður aukist úr 250 milljónum við reksturinn í 690 millj. á sama tíma og verið er að skera niður um 1,7%, ef ég man rétt, af öllum sýslumannsembættum í landinu. Það er því augljóst að hér hefur átt sér stað mikil áherslubreyting og ráðherra svaraði í rauninni engu þeirri spurningu hvort fallið hafi verið frá þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með.

Eins svaraði ráðherra að mínu viti ekki miklu um þá framtíðarsýn sem hún hafi á þetta embætti og hvernig hún sæi fyrir sér lögreglustjórn þróast á næstu árum því að uppi hafa m.a. verið hugmyndir um það, bæði í umræðum hjá sýslumönnum, lögreglustjórum o.fl., að fækka lögreglustjóraembættum um landið. Einnig væri fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra skýra betur hvaða framtíðarsýn hún hefur á lögregluna því að löggæsla er eitt merkilegasta verkefnið sem ríkið innir af hendi og því mikilvægt að þar sé skýr framtíðarsýn og menn átti sig á því hvað hæstv. dómsmrh. er að fara því að það hefur verið mjög erfitt hingað til.