Fangelsismál

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:41:30 (734)

2000-10-18 14:41:30# 126. lþ. 13.4 fundur 99. mál: #A fangelsismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægum spurningum. Alþingi á að ræða stöðuna í fangelsis- og meðferðarmálum á Íslandi. Ég vek athygli á því hve mikilvægt er að meðferð sé til staðar vegna áfengis- og fíkniefnamála. Það er grundvallarúrræði til þess að fangar geti nýtt sér það sem í boði er, vinnu, námskeið og frekara nám. Ég tel því mjög mikilvægt að boðið sé upp á samvinnu við SÁÁ í upphafi meðferðar ef við ætlum að reyna að þróa fangelsismál okkar þannig að um sé að ræða einhvers konar endurhæfingu og enduruppbyggingu fanga en ekki bara geymslu þar sem þeir geta komist í fíkniefni og annað sem því miður virðist reynslan á Litla-Hrauni.

Í lokin, virðulegi forseti, spyr ég dómsmrh. hvort það hafi verið mistök að byggja fangelsi á Litla-Hrauni.