Fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:56:20 (740)

2000-10-18 14:56:20# 126. lþ. 13.5 fundur 94. mál: #A fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ákaflega ólíkt hæstv. landbrh. að leggja á flótta, en sú ræða sem hæstv. ráðherra flutti áðan fól í sér uppgjöf gagnvart félögum sínum innan ríkisstjórnarinnar. Hann komst ekki lengra með málið og hann óskar eftir liðsinni og stuðningi fjárln.

Nú er það svo að við hv. þm. Jón Bjarnason og sá sem hér stendur erum báðir í nefndinni og má vel vera að okkur takist að snúa ofan af stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum landbúnaðarins og koma þannig hæstv. ráðherra til hjálpar. En hæstv. ráðherra óskaði eftir ráðum og ráðgjöf. Mig langar að leggja inn litla hugmynd, herra forseti.

Í fjárlagafrv. sem liggur fyrir fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að 10 millj. kr. verði varið til þess að gera gagnagrunn á tölvutæku formi um íslenskar jarðir. Ég spyr, herra forseti: Er ekki alveg tilvalið að láta þetta verkefni t.d. út til Hólaskóla? Ég mun óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þessu síðar í þinginu því að ég hef þegar lagt fram fyrirspurn um þetta en hér er dæmi um verkefni innan ráðuneytisins sem mundi falla ákaflega vel að Hólaskóla.