Fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:57:33 (741)

2000-10-18 14:57:33# 126. lþ. 13.5 fundur 94. mál: #A fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að útkoma þessara stofnana landbrn. eða landbúnaðarins í fjárlagafrv. sé gott dæmi um það að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Þrátt fyrir byggðaáætlun, þrátt fyrir stefnumótun í landbúnaði um að efla þessa starfsemi og þrátt fyrir allt talið um að flytja verkefni og störf út á landsbyggðina, sæta þessar stofnanir niðurskurði sem þó eru staðsettar á landsbyggðinni og eru til í dag. A.m.k. er tækifærið ekki notað til að byggja á þeirri starfsemi sem fyrir er úti í byggðum landsins og efla hann og styrkja þennan málaflokk í leiðinni.

Svo kemur hæstv. ráðherra og bregður á það gamalkunna og lúna ráð þegar hann treystir sér ekki til að forsvara fjárveitingatillögur í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar til stofnana sinna að skjóta sér á bak við þingið. Þá er allt í einu ráðherrann, ríkisstjórnin og meiri hluti hennar gufaður upp og eitthvað ópersónulegt sem heitir ,,þingið er með málið``. Þar með er ráðherra laus allra mála og ekki við hann að sakast þó að skammarlega lélegar fjárveitingatillögur í frv. beri ekki frammistöðu hans gott vitni í ráðherrahópnum.