Atvinnumöguleikar kvenna í fiskvinnslu

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:08:42 (748)

2000-10-18 15:08:42# 126. lþ. 13.7 fundur 64. mál: #A atvinnumöguleikar kvenna í fiskvinnslu# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Mér þykir miður að þessi nefnd skyldi ekki hafa verið skipuð þegar þessi áætlun var samþykkt vorið 1998 og er kannski dæmigert, herra forseti, fyrir þau tök sem ríkisstjórnin virðist hafa á ýmsum málum sem lúta að stöðu landsbyggðarinnar og þeim möguleikum og aðstæðum sem fólk þar er að glíma við.

Nefndin verður skipuð í dag, sagði hæstv. ráðherra, og við skulum vona að það ágæta fólk sem hann nefndi til sögunnar vinni fljótt. Það er mikið rétt sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði áðan að sú þróun sem við höfum séð í fiskvinnslunni mun halda áfram. Tæknin mun halda áfram að leysa mannshöndina af hólmi og beinum störfum við fiskvinnslu mun fækka. Hins vegar fjölgar störfum við ýmiss konar tækni og úrvinnslu upplýsinga, gagnavinnslu, tölvuvinnslu og ýmislegt þess háttar. Þá þarf að gæta þess, herra forseti, að þau störf verði þá til á þeim stöðum þar sem hinum störfunum er að fækka. Því miður hefur þessi þróun verið það handahófskennd ef má orða það þannig á undanförnum árum að nýju störfin hafa flest orðið til annars staðar. Þau hafa orðið til í stærra þéttbýli, einkum hér syðra og eru hluti af í rauninni þeim þrönga atvinnumarkaði sem konum víða um landið er búinn.

Það er svo alveg sérstakt mál sem ástæða væri til að ræða á Alþingi, en það er staða kvenna sérstaklega vítt og breitt um landið, ekki bara vegna þess að atvinnumöguleikar þeirra hafa skerst heldur líka vegna ýmissa annarra þátta sem hafa áhrif á byggðaþróunina.