Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:10:59 (749)

2000-10-18 15:10:59# 126. lþ. 13.8 fundur 65. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Á hv. Alþingi hafa undanfarin ár reglulega verið umræður um hvalveiðar, nú síðast í síðustu viku vegna þáltill. sem hér var rædd um inngöngu Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðið en það er ljóst að fyrir liggur samþykkt Alþingis frá vorinu 1999 um að hvalveiðar verði hafnar.

Ekki liggur fyrir samkvæmt þeirri tillögu hvenær á að hefja hvalveiðar, en menn hafa rætt mikið hver ástæða þess er að Íslendingar telja nauðsynlegt að hefja hvalveiðar að nýju. Þau rök sem helst hafa verið tínd til eru þau að við höfum ákveðinn rétt til þess að nýta þá dýrastofna sem sjálfbærir mega teljast að mati vísindamanna okkar. Í öðru lagi tefla menn fram rökum um mikilvægi menningarlegrar fjölbreytni sem mér persónulega geðjast afar vel að og held að séu kannski þau mikilvægustu þegar upp er staðið. Og í þriðja lagi hafa menn teflt fram þeim rökum að það sé mikilvægt að við veiðum hval vegna þeirrar samkeppni sem hvalurinn er í við veiðimenn um fiskinn, þ.e. þeirrar samkeppni sem er við okkur. Þessi rök hafa virkað afar vel, ef má orða það þannig, ekki síst gagnvart þeim íbúum sjávarbyggðanna sem lifa af veiðum.

Í umræðunum hefur komið fram, herra forseti, að ef menn ætluðu sér að veiða það mikið af hrefnu --- hrefnan hefur sérstaklega verið tiltekin kannski umfram seli eða sjófugla sem menn vita að eru líka býsna afkastamiklir --- en ef menn ætla sér að fara í þessar veiðar, þá þurfi þær að vera býsna miklar svo að þess sjái stað.

Nú er það mjög mikilvægt ef við erum að undirbúa það að hefja hvalveiðar að nýju að þau vopn sem við ætlum að nota, þær röksemdir sem við ætlum að beita þegar til stykkisins kemur, standist allar, þær séu þá allar þannig að við getum gengið býsna keik fram og borið þær fram fyrir alþjóðasamfélagið. Það er þess vegna mikilvægt, herra forseti, að það komi hér fram hversu miklar, og út á það ganga spurningar mínar, veiðar okkar á hrefnu voru á sínum tíma, hversu miklar þær voru þegar þær voru merktar í fyrsta lagi og í öðru lagi hversu miklar þær þurfa að vera til að þess sjái stað í lífríkinu.

Eins og ég sagði, herra forseti, er þetta mikilvægt. Það er mikilvægt að við höfum það á hreinu hvernig við þyrftum þá að haga veiðum okkar ef þessi þriðja röksemd sem ég rakti áðan fyrir veiðunum ætti að standast.