Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:19:57 (753)

2000-10-18 15:19:57# 126. lþ. 13.8 fundur 65. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Árni Gunnarsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Ég held að bráðnauðsynlegt sé að hefja sem allra fyrst hvalveiðar og þá sérstaklega hrefnuveiðar af því hún sækir inn á grunnslóðina eins og hér hefur réttilega verið bent á, sækir þar á hrygningarstofna og er í samkeppni við veiðar mannskepnunnar þar. Ég held að ekki sé síður nauðsynlegt að hefja sem allra fyrst hvalveiðar hreinlega út af vígstöðu okkar gagnvart þeim sem vilja hvalveiðarnar banna og jafnvel veiðar á uppsjávarfiski.

Það dylst ekki þeim sem fer um landið og þeim sem sækja út á grunnmið að stórum hvölum fer fjölgandi og þarf ekki annað en að fara um Strandirnar til þess að sjá að hvalirnir eru meira að segja sjálfir farnir að synda á land.