Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:26:56 (757)

2000-10-18 15:26:56# 126. lþ. 13.6 fundur 36. mál: #A skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Á árinu 1996 voru gerðar breytingar á skattalögum þar sem fjármagnstekjuskatti var komið á, auk þess sem breytingar voru gerðar á skattlagningu á arði af hlutafé og ýmsum öðrum þáttum. Þessar lagabreytingar voru umdeildar og var ég í hópi þeirra sem þótti nóg um hve mjög skattstofn af arðgreiðslum var þrengdur, auk þess sem gagnrýnendum þótti ámælisvert hve lágt skatthlutfallið á hámarkstekjur var.

Minna fór fyrir gagnrýni okkar á þessum tíma á það ákvæði laganna sem heimilar frestun á skattlagningu á söluhagnað hlutabréfa. Í stað þess að greiða tekjuskatt af hagnaðinum gátu einstaklingar nú frestað skattlagningunni með því að fjárfesta á nýjan leik. Þetta hefur síðan orðið til þess að margir virðast hafa farið þá leið að fjárfesta fyrir söluhagnað í eigin eignarhaldsfélögum, ekki einvörðungu hér á landi heldur jafnvel erlendis þar sem skattar eru lægri, t.d. í Lúxemborg og öðrum svæðum sem gera út á það að laða til sín auðmenn sem vilja hliðra sér hjá því að greiða skatta og skyldur af fjármagni í heimaríkinu.

Við þessa lagasetningu á sínum tíma hafa margir eflaust þóst eygja þann möguleika að frestun á skattlagningu söluhagnaðar gæti stuðlað að uppbyggingu í atvinnulífi því heimildarákvæðið byggir á því að hagnaðurinn renni til fjárfestingar í öðru félagi. Að vísu rifjaði Kristján Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, upp í blaðagrein nýlega umsögn skattrannsóknarstjóra frá þessum tíma þar sem hann varar við því að menn kynnu að taka fé út úr atvinnurekstri og skapa sér rekstrarumgjörð sem kæmi þeim undan að greiða skatta til samfélagsins.

Það var reyndar einnig blaðamaður á Morgunblaðinu, Egill Ólafsson, sem setti þetta mál að nýju í brennidepil með ítarlegri úttekt í byrjun þessa mánaðar. Þar kom fram að lagasetningin hafi beinlínis hvatt til fjármagnsflutninga úr landi. Þetta er alvarlegt mál hvernig sem á það er litið og eflaust svíður margan Íslendinginn að horfast í augu við þá staðreynd að miklir fjármunir, mikil þjóðarverðmæti, kunni að hafa verið tekin út úr sjávarútvegi og öðrum atvinnurekstri og lætt til annarra landa í skjóli þessarar lagasetningar.

Á fyrsta degi þingsins lagði ég fram þá fyrirspurn sem nú kemur til umræðu, en í ljósi þess að hæstv. fjmrh. boðaði þá breytingar á þessum lögum ákváðum við að láta sitja við það eitt á þessu stigi að fá fram nánari upplýsingar um málið og upplýsingar um áform ríkisstjórnarinnar um lagabreytinguna, en munum að sjálfsögðu fylgja málinu eftir og sjá til þess eða leggja okkar af mörkum til að breyting verði gerð á þessum lögum.

Fyrirspurnir mínar til hæstv. fjmrh. eru tvær. Þær eru svohljóðandi:

1. Hvernig metur fjmrh. reynslu af þeirri breytingu sem gerð var á skattalögum árið 1996 sem heimilar frestun á skattlagningu á söluhagnaði hlutabréfa, sérstaklega með tilliti til fjármagnsflutninga úr landi?

2. Eru upplýsingar fyrir hendi um hversu miklum skattgreiðslum af söluhagnaði hefur verið frestað með þessum hætti og hversu stór hluti þeirra er vegna kaupa á erlendum hlutabréfum?