Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:30:23 (758)

2000-10-18 15:30:23# 126. lþ. 13.6 fundur 36. mál: #A skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Þegar þessi frestunarheimild var lögleidd árið 1996 var markmið hennar yfirlýst að auðvelda skipulagsbreytingar í atvinnulífinu, stuðla að því að fjármagn héldist í íslensku atvinnulífi. Það markmið hefur vissulega náðst að vissu marki enda er innlendur hlutabréfamarkaður nú mun virkari en áður var og kaup á hlutabréfum eru orðin sjálfsagður þáttur í sparnaðarkörfu hins almenna borgara, ef mætti orða það svo.

Á hinn bóginn er því haldið fram, og er vafalaust rétt, að breytingin hafi ýtt undir að fjárfestar, sérstaklega hinir stærri, hafi leitað á erlendan markað þar sem skattumhverfið er hagstæðara en hér, eins og í Lúxemborg. Þar á bankaleyndin áreiðanlega líka einhvern hlut að máli en þessi þróun stríðir gegn hinu upphaflega markmiði lagabreytingarinnar frá 1996 sem við munum mörg eftir hér.

Ég tel því að breytingin hafi ekki að öllu leyti náð tilgangi sínum. Þess vegna hef ég sagt opinberlega að ég sé að velta fyrir mér, og við í ríkisstjórninni, hvernig unnt sé að gera þarna breytingar en þó þannig að þær stuðli að hinum upphaflegu markmiðum breytingarinnar frá 1996, þ.e. að auðvelda skipulagsbreytingar, viðskipti með hlutabréf og stuðla að því að fjármagn haldist áfram í íslensku atvinnulífi. Ekki er mjög einfalt mál að gera slíkar breytingar en ég hef þó fullan hug á því að beita mér fyrir þeim og þær eru til athugunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Meira er því miður ekki hægt að segja um það fyrr en slíkt frv. sér dagsins ljós.

Að því er varðar síðari spurningu hv. þm. um hversu miklum skattgreiðslum hafi verið frestað með þeim hætti sem núverandi ákvæði heimila og hversu stór hluti þeirra sé vegna kaupa á erlendum hlutabréfum er því til að svara að ekki liggja fyrir sundurliðaðar upplýsingar um þetta, reyndar hvorki um heildarskattgreiðslurnar, sem hefur verið frestað á grundvelli þessa ákvæðis, né skiptingu milli innlendra og erlendra hlutabréfa. Ég hef hins vegar farið fram á það í tilefni af þessari fyrirspurn að embætti ríkisskattstjóra kanni hvort unnt sé að nálgast þessar upplýsingar með einhverju móti, m.a. úr ársreikningum þeirra fyrirtækja sem embættið heldur til haga. Vænti ég þess að þær upplýsingar reynist það aðgengilegar að hægt sé að búa til úr þeim gagnlegar upplýsingar fyrir þingið og mun ég þá koma þeim til skila á hinu háa Alþingi.