Stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:47:53 (765)

2000-10-18 15:47:53# 126. lþ. 13.9 fundur 89. mál: #A stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að brýnt sé að reyna að ljúka þessu máli um þjóðgarð um Snæfellsjökul og nágrenni hans. Það þarf ekki að lýsa landslagi þar fyrir fólki. Þarna er eitt allra fegursta landsvæði sem við eigum og allir sammála um það fyrir löngu að ef einhvers staðar á að vera þjóðgarður á landi hér þá er það í kringum þennan jökul. Það er synd að þetta skuli taka svo langan tíma sem raun ber vitni.

Ég tek undir það að ekki er hægt að bíða endalaust eftir svörum. Spurningin er hvort ekki sé í lagi þó einhverjar af þessum jörðum séu hluti þjóðgarðsins. Eftir því sem þetta dregst lengur verður flækjan oft erfiðari.

Ég held að betra sé, herra forseti, að ljúka þessu máli sem fyrst því annars getur orðið í Dritvík daufleg vist.