Stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:49:05 (766)

2000-10-18 15:49:05# 126. lþ. 13.9 fundur 89. mál: #A stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nú er liðið á sjöunda ár síðan þáv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson lagði umrædda tillögu fram í ríkisstjórn og hún var samþykkt. Ég bar upp svipaðar spurningar um málið í fyrra, í mars, og þá var hæstv. umhvrh. mjög bjartsýnn á að þetta væri allt að koma og mundi ganga. Hæstv. ráðherra er enn þá bjartsýnn en mér finnst að málið hafi gengið hægar en ráða mátti af orðum hennar í fyrra. Ég tek undir með þeim sem spyrja hvort ekki sé rétt að láta til skarar skríða ef ekkert gengur með þá samninga sem eftir eru og ganga í málið þrátt fyrir að annmarkar séu á því. Ég er hins vegar á þeirri skoðun eins og hæstv. ráðherra að best sé að klára þessa samninga. Ég vona sannarlega að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér, að það sé komið að lokum þessa máls því heimamenn eru orðnir óþolinmóðir og er vissulega ástæða til að ljúka þessu verki.