Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 10:56:01 (773)

2000-10-19 10:56:01# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[10:56]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki aðdáandi kvótakerfisins --- nei, ég get ekki sagt að ég hafi verið neinn sérstakur aðdáandi þess. Hins vegar erum við að ræða um afmarkaðan þátt sem er brottkast afla og það er alveg ljóst að kvótakerfið hefur haft áhrif bæði til þess að menn auki vöruvöndun en líka til þess að menn fleygi fiski í sjóinn. Hv. þm. nefndi einmitt að menn vildu bara koma með fyrsta flokks afla að landi. Tvær leiðir eru til þess.

Önnur er fólgin í því að ganga vel um, draga netin sín t.d. á hverjum degi og svoleiðis. Hin er fólgin í því að henda því í sjóinn sem er ekki í lagi. Báðar þessar aðferðir eru í gangi.

Ég held að það sem er langbrýnast af öllu sé að vita nákvæmlega hvað er að gerast í þessu. Sú vitneskja mun ekki birtast okkur eftir eftirlitsferðir fiskistofumanna þó að þeir séu settir fáeinir um borð í einhverja fiskibáta sem hafa landað með einhverri annarri aflasamsetningu en fjöldinn í kring. Allir vita að aflasamsetning á fiskiskipaflotanum er mjög mismunandi eftir bátum, jafnvel þó það sé stutt á milli þeirra á miðunum.

Í þessu eru fólgnar vísbendingar sem á auðvitað að fara eftir og allt það og ég ætla ekki að lasta það að eitthvert eftirlit sé haft. En ég hef miklar efasemdir um að refsiákvæði muni bæta. Reynslan hefur sýnt okkur að refsiákvæði vantar ekki. Það má dæma menn í fangelsi og 4 millj. kr. sekt fyrir að fleygja fiski í sjóinn. Hvenær hefur þeim ákvæðum verið beitt?

Ég segi: Þau lög eru gagnslaus og menn verða að leita annarra leiða og af öðru tagi en því sama og hefur verið gagnslaust að hafa í lögum fram að þessu.