Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 11:00:24 (775)

2000-10-19 11:00:24# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði það og mér er engin launung á því að auðvitað hafa bæði komið inn kostir og ókostir við tilkomu kvótakerfisins hvað varðar umgengni um miðin. Ókosturinn er sá að menn henda núna miklu magni af fiski í sjóinn að mati mjög margra fyrrum félaga hv. þm. á sjó hér fyrr. Ég sé enga ástæðu til að halda því fram að þessir menn séu ekki að segja satt og þó þeim þyki það leiðinlegt hafa þeir samt gert það. Ég á ekki von á því að það breytist í sjálfu sér við það sem hér hefur verið lagt til að verði gert. Síðan er ástæða til að velta því fyrir sér vegna þess að ævinlega er sama röksemd dregin fram um netaveiðarnar, að þær hafi batnað við það að kæmi á kvótakerfi, að það eru ekki veidd í net nema u.þ.b. 9% af þorskaflanum, þó að umgengnin um miðin hafi batnað hvað varðar netaveiði sem getur verið rétt en þarf ekki að vera það vegna þess að enginn dauður fiskur skilar sér á land úr netum núorðið og hefur ekki gert síðan kvótakerfið fór að virka. Kannski væri rétt að fiskistofumenn settust að í netabátum í allan vetur og kæmust endanlega að því hvað hefði gerst hvað varðar netaveiði en netaveiðar eru einungis lítill hluti af heildarveiðinni. Full ástæða er til að skoða þessi mál miklu víðtækar en gert hefur verið fram að þessu og ég hvet til þess að menn nái saman um þær tillögur sem hafa verið lagðar fram í því efni.