Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 11:22:24 (777)

2000-10-19 11:22:24# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[11:22]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon varaði menn við öfgum á báðar síður þegar rætt væri um brottkast afla. Þær öfgar sem ég fer með eru ekki ættaðar frá þeim sem hér stendur. Einn þekktasti fiskiskipstjóri þessa lands, Hrólfur Gunnarsson, lýsti því yfir fyrir nokkrum árum að brottkast á Íslandsmiðum mundi nema sem svarar 200 þús. tonnum af fiski. Menn mega ekki rugla þessu saman við þorsk, af fiski sagði hann. Við skulum deila í þetta með tveimur en samt er útkoman ofboðsleg. Formælendur fiskveiðistjórnarkerfisins hafa predikað það frá upphafi að ein aðalforsenda kerfisins væri að bjarga aðalfiskstofnunum við landið og þeir halda því fram að svo hafi orðið. Niðurstöður þeirra veiðitalna sem við höfum og ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar benda í allt aðra átt nema skýringuna sé að finna í því að þessum viðgangi fiskstofnanna sé hent. Það er eina skýringin sem þeir hafa á því að þetta kerfi hafi séð um viðgang fiskstofnanna, að aflanum sé hent. Það er þekkt staðreynd að á fyrstu nóttu sem net liggur í sjó drepst 35--45% af aflanum. Ekkert af þessum afla kemur lengur að landi.