Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 11:24:18 (778)

2000-10-19 11:24:18# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[11:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að nota orðið öfgar um þá lýsingu sem hv. þm. viðhafði eða í tengslum við þann nafngreinda einstakling sem hann nefndi. En þegar vitnað er til endanna í þessu þá eru þeir eins og ég segi allt frá því að menn telji þetta lítils háttar mál og yfir í að um hundruð þúsunda tonna af nýtanlegum eða verðmætum fiski sé að ræða. Það er gífurlegt bil. En við getum væntanlega orðið sammála um að þó þetta lægi einhvers staðar þarna á milli er það stórfellt og hrikalegt vandamál. Svo langt er nú gengið í umræðunni að meira að segja forstjóri Hafrannsóknastofnunar hefur langleiðina játað að þar á bæ gætu menn jafnvel tekið undir að um eitthvað sem mældist í tugum þúsunda tonna gæti verið að ræða, og þá er það auðvitað þegar orðið umtalsvert. Ég óttast að sú sé rauninn að þarna sé á ferðinni það mikið brottkast að það valdi umtalsverðum skekkjum. Þegar við erum hér að velta á milli okkar fáeinum þúsundum tonna til eða frá, hvort hægt sé að hafa byggðapott upp á 500 eða 1.500 tonn eða eitthvað því um líkt, þá hrekkur maður náttúrlega við ef sterkar vísbendingar eða líkur eru á því að á sama tíma sé brottkastið af þessari stærðargráðu. Ég held að líklegt sé að það sé hvort tveggja vegna stærðarsorteringar og af því fara sögur að ákveðnir aðilar vilji helst engan fisk undir fimm eða sjö kg. Hann er það sem gefur hæsta verð á mörkuðum og svo hins vegar vegna tegundasorteringar þegar kvótasamsetning báta er þannig að þeir eru kvótalitlir eða kvótalausir í ákveðnum tegundum en eru engu að síður í blönduðum veiðiskap. Þetta verður þá að skoðast eins og það er.

Mér finnst aðalatriðið ekki endilega vera að þrátta um magnið sem þarna er á ferðinni. Ef við teljum sterk rök vera fyrir því að um umtalsvert brottkast sé að ræða þá eigum við bara að líta á það sem vandamál óháð stærð og bregðast við sem slíku.