Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:01:38 (786)

2000-10-19 13:01:38# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir tel ég til komið vegna þeirrar umræðu sem upp kom í sumar um brottkast afla, umræðu sem lengi hefur staðið yfir. Ég mundi segja að sú umræða hafi ekki farið leynt af hálfu nokkurs. Mér finnst sérstakt, herra forseti, að heyra jafnágætan mann og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson segja að reynt sé að þegja þessa umræðu í hel eða gleyma brottkastinu í kvótakerfinu. Að það skuli koma úr hans munni finnst mér merkilegt því að hv. þm. á að vita betur. Þessi umræða hefur staðið yfir frá því að kvótakerfið varð til og var líka í gangi löngu fyrir þann tíma.

Ég held að þetta frv., herra forseti, sé til bóta. Ef við lítum á 1. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Telji Fiskistofa að afli tiltekins skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í skipið til að fylgjast sérstaklega með veiðum þess.``

Ég hitti í sumar, herra forseti, skipstjóra á litlum netabát sem stundaði veiðar fyrir Suðurlandinu. Hann sagði mér að í fyrra hefði staðið þannig á hjá sér að hann átti eftir fjögur tonn af ýsu. Hann sagðist hafa verið í vandræðum vegna þess að hann átti svo lítið eftir af þorski, nánast ekki neitt. Hann brá á það ráð að hringja í félaga sína og spyrja hvar hann gæti náð þessari ýsu, þessum fjórum tonnum af ýsu í netin þannig að vel færi. Honum var bent á einhverja slóð, lagði net sín þar og þegar hann var búinn að ná þessum fjórum tonnum af ýsu þá hafði hann hent 20 tonnum af þorski.

Ég spyr: Hvers vegna spyr vanur skipstjóri að því hvar fiskurinn er, hvar veiðislóðin sé, hvar þorskurinn sé og ýsan? Mér virtist viðkomandi ekki vera að leita að miðum sem pössuðu fyrir hans kvóta heldur væri hann frekar að leita að afsökun fyrir veiðum á þessari slóð. Einmitt svona dæmi sýna okkur að nauðsynlegt er að hafa þann möguleika að þegar sjómenn, skipstjóri í þessu tilfelli, eru á veiðum á slóðum þar sem greinilegt er að þeir muni ekki ná þeim afla sem þeir í raun eiga samkvæmt kvóta þeirra, að þá sé hægt að grípa þar inn í.

Ég sé heldur ekki ástæðu til að þræta fyrir það að þessi svokallaða sóun á sér stað í kvótakerfinu. Menn reyna einfaldlega að hámarka möguleika sína í kvótanum nákvæmlega eins og þeir gerðu þegar sóknardagakerfið var og jafnvel fyrir tíma sóknardagakerfis. Þá voru einfaldlega ákveðnar stýringar á stærð aflans, þ.e. takmörk fyrir því hvað mátti koma með smáan fisk að landi.

Ég hef áður sagt þá reynslusögu úr þessum ræðustóli að í Reykjafjarðarálnum 1975 var veiðin svo mikil en þorskurinn svo smár að af hverjum tíu tonnum sem menn fengu inn fyrir borðstokkinn þá fóru átta tonn til baka sem of smár fiskur. Ég veit að okkar ágæti hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson man þessa tíma.

Styrkleiki kvótakerfisins er eigi að síður veikleiki sóknarmarksins um leið. Kvótakerfið er varðandi brottkast ekkert öðruvísi en sóknardagakerfið en styrkur kvótakerfisins er sá að við náum að hámarka verðmæti að nánast flestu öðru leyti. Við náum mestum verðmætum aflans. Menn nota m.a. færri net í sjó, ganga betur um aflann en þeir gerðu áður, t.d. með því að reyna að koma með hann verðmætari, kældan í körum o.s.frv. Menn stytta jafnvel veiðiferðirnar.

Í kvótakerfinu er útgerðin mun hagkvæmari af því að sóknin verður minni, olíueyðslan þar með minni, veiðarfærakostnaður verður minni og takmörkun flotans verður auðveldari.

Veikleikar sóknardagakerfisins eru einmitt þessir. Sóunin á veiðarfærum var gríðarleg. Þar er markmiðið að vera nógu mikið á sjó án tillits til veðurs. Menn höfðu sem mest af netum til að ná sem mestum afla, sama í hvaða ástandi hann var. Þannig gerðu menn út ár frá ári og að sjálfsögðu var um leið hagkvæmast að vera með sem flest skip á sjó. Það er fyrst og fremst á þessum rökum sem ég byggi skoðun mína. Sóun á sér stað í öllum kerfum og hvergi er hægt að koma beinlínis í veg fyrir hana en það er hægt að hámarka afraksturinn af auðlindinni með því að gera sóknina sem hagkvæmasta.

Við þekkjum mörg dæmi um sóknarkerfi. Við munum eftir dæmi frá Kanada. Þegar þeir byrjuðu með sóknarkerfi á lúðuveiðum við strendur Kanada var fyrst ákveðið að miða sóknina við 100 daga. Nokkrum árum seinna var sóknin komin niður í einn dag.

Ég held, herra forseti, að eftir því sem umræðan hefur þróast hafi meira að segja þeir sem upphaflega voru andstæðingar kvótakerfisins komist á þá skoðun að þarna hafi verið fundin leið til að stjórna veiðum og hámarka afraksturinn þó að hægt sé að notast við aðrar aðferðir við einstakar greinar veiðanna. Ég lít svo á að framtíðin muni segja okkur að við höfum þarna hitt á góða aðferð. Til þess að hún verði eins fullkomin og kostur er þá verður að fylgjast með því hvernig menn umgangast miðin og að þeir haldi þau lög sem um þetta eru sett hér á hv. Alþingi. Með því eftirlitskerfi sem verið er að þróa held ég að við munum smám saman ná að lægja þær óánægjuraddir sem heyrst hafa. Ég er ekki að segja að það takist með þessu frv., það mun áfram verða heilmikil umræða um þessi mál. Ég held þó að eftir því sem umræðunni vindur fram komi fleiri hugmyndir og við náum betri sátt um þetta kerfi en verið hefur fram að þessu.