Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:31:28 (796)

2000-10-19 13:31:28# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 2001 er gert ráð fyrir að Vegagerðin dragi úr framkvæmdum fyrir 800 millj. kr. á árinu frá því sem vegáætlun gerði ráð fyrir. Enn liggur ekki ljóst fyrir hvar þessar frestanir koma til framkvæmda. Á síðasta ári var framkvæmdum frestað fyrir 585 millj. kr. og var lunginn úr því í höfuðborginni. Nú heyrast enn þær raddir að frestanir muni koma til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og því er þessu máli hreyft utan dagskrár til að spyrja hæstv. samgrh. nánar út í þessi frestunaráform.

Af stórum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu sem eiga að koma til framkvæmda á næsta ári má nefna gatnamót við Víkurveg upp á 304 millj. kr., mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut upp á 760 millj. kr., auk færslu Hringbrautar niður fyrir Tanngarð og tengingu Hallsvegar við Víkurveg samanlagt að fjárhæð rúmlega 120 millj. kr.

Þá koma til viðbótar framkvæmdir sem frestað var frá árinu 2000--2001. En samkvæmt upplýsingum frá Vegagerð ríkisins eru alls áætlaðar framkvæmdir fyrir 1.852 millj. kr. á öllu höfuðborgarsvæðinu árið 2001 verði þeim ekki frestað. Til viðbótar við þær eru svo fleiri brýn verkefni að leysa úr í vegamálum borgarinnar, svo sem bygging Sundabrautar og lausn vandans á horni Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Ég tel mjög brýnt að það verði gert en Miklabrautin er tjónamesta gata landsins. Þetta horn hefur verið til umræðu hjá borgaryfirvöldum eins og kunnugt er en enn hefur ekki fengist niðurstaða í það hvernig vandinn skuli leystur þótt skref hafi verið tekin með ákvörðun um breikkun Miklubrautar á kafla.

Herra forseti. Öllum sem búa á höfuðborgarsvæðinu er ljóst að vegakerfi þess annar ekki þeim mikla umferðarþunga sem er á álagstímum. Mikið ófremdarástand skapast á ákveðnum tímapunktum og eigi að leysa það verður að tryggja að áætluð fjárframlög til vegaframkvæmda séu ekki skorin niður við afgreiðslu fjárlaga. Má með rökum halda því fram að meira þyrfti að koma til ef vel ætti að vera enda hafa sveitarfélögin á svæðinu talið að svo sé. Fjöldi aðfluttra umfram brottflutta á höfuðborgarsvæðinu hefur verið um tvö þúsund á ári síðustu ár og stefnir í að ástandið breytist ekki til hins betra. Í gögnum um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að fólksfjölgunin verði 36% á næstu 20 árum og að aukning bílaumferðar verði 40--50% á tímabilinu.

Viðleitni ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu er góðra gjalda verð. En að leita fanga í vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu væri fásinna og vil ég hvetja hæstv. samgrh. til þess að láta ekki verða af slíku. Ekki aðeins er með því verið að framlengja hið óþolandi ástand sem skapast í umferðinni á álagstímum heldur er það mikill ábyrgðarhlutur vegna umferðaröryggis og slysahættu.

Þá er vert að benda á það, herra forseti, að þenslan á verktakamarkaði hefur verið mun meiri á sviði húsbygginga en jarðvinnu og tilboð í verkefni hjá Vegagerðinni hafa verið hagstæð miðað við kostnaðaráætlanir. Því er mun skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina að snúa sér að öðrum þáttum þegar draga á úr þenslu.

Þær framkvæmdir sem vegáætlun gerir ráð fyrir í höfuðborginni að komi til framkvæmda á næsta ári eru allar mjög brýnar og til þess fallnar að leysa úr miklum vanda og auka umferðaröryggi vegfarenda. Arðsemi slíkra framkvæmda er gríðarlega mikil. Má nefna sem dæmi mislæg gatnamót í Mjódd, en í arðsemismati Línuhönnunar kemur fram að slysum muni fækka um 40% og tafir minnka til muna þegar gatnamótin verða komin. Þá muni nýju gatnamótin stuðla að minni eldsneytisnotkun og draga þannig úr mengun. Samkvæmt mati Línuhönnunar munu mislæg gatnamót í Mjódd skila nærri 60% arðsemi og er talið að framkvæmdin borgi sig upp á innan við tveimur árum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er algengt að sjá háar arðsemistölur þegar um vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu er að ræða enda ljóst að kostnaður vegna slysa og tafa í umferðinni er gríðarlegur. Það hlýtur að ráða miklu við ákvörðun af því tagi sem samgrh. stendur nú frammi fyrir hver arðsemi framkvæmdarinnar er en inn í slíkt mat eru teknir þættir eins og umferðaröryggi, slys, tafir, mengun o.fl. Við slysasmatið er gjarnan stuðst við reynslu af slysatíðni eftir byggingu annarra umferðarmannvirkja og má sem dæmi nefna Höfðabakkabrúna þar sem slysum hefur fækkað gríðarlega eftir byggingu hennar.

Herra forseti. Ég vil í lokin minna á umferðaröryggisáætlun ríkisstjórnarinnar en markmið hennar var að fækka alvarlegum umferðarslysum um 20% á árinu 1995--2001. En því miður hefur raunin orðið allt önnur og það er ljóst að meira þarf til en pappírslöggur til að breyta því.

Herra forseti. Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. samgrh.:

Telur ráðherra koma til greina að 800 millj. kr. fyrirhuguð frestun vegaframkvæmda komi að einhverju leyti til framkvæmda í höfuðborginni? Ef svo er, hvaða framkvæmdir telur ráðherra helst koma til álita í því sambandi? Telur ráðherra slíka frestun vera í samræmi við þau markmið sem sett voru með umferðaröryggisáætlun ríkisstjórnarinnar? Hvaða sjónarmið eru lögð til grundvallar við ákvörðun af þessu tagi? Er arðsemismat að einhverju leyti lagt til grundvallar?