Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:41:50 (798)

2000-10-19 13:41:50# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður að horfast í augu við það að mikil fjölgun fólks á höfuðborgarsvæðinu og stóraukin einkabílaeign hefur aukið þörfina fyrir miklar og dýrar samgönguframkvæmdir á þessum slóðum. Ekki verður hjá því komist, það er held ég öllum ljóst, nú og á næstu árum að ráðast í mjög miklar framkvæmdir þannig að þær eru með því mesta sem við höfum séð í samgöngusögu okkar þegar tekin eru stærstu gatnamótin, Sundabraut og aðrar slíkar framkvæmdir. En þessar framkvæmdir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, verða ekki umflúnar. Við stöndum frammi fyrir þeim aðstæðum í umferðinni að þetta er óhjákvæmilegt til þess að fólk komist yfirleitt leiðar sinnar, til þess að auka öryggi í umferðinni, draga úr tjóni á ökutækjum og slysum á fólki og til þess að tengja ört stækkandi og mjög dreifða byggð og ný hverfi í þessari stórborg sem er að rísa við innanverðan Faxaflóa.

Auðvitað er slæmt í sjálfu sér að þessar framkvæmdir skuli ekki vera hægt að vinna samkvæmt fyrir fram gerðum áætlunum jafnvel þó svo að efnahagsleg rök og aðstæður á vinnumarkaði tímabundið mæli með því að úr þeim væri dregið. Reyndar er sú áhersla hæstv. ríkisstjórnar athyglisverð að láta innlendar framkvæmdir og uppbyggingu á innviðum samfélagsins sífellt víkja og mæta afgangi á sama tíma og engir tilburðir eru t.d. uppi hafðir til að takmarka fjárfestingar útlendinga, þvert á móti er þar tekið við öllu sem býðst eins og á færibandi væri.

Herra forseti. Loks er óhjákvæmilegt að nefna í þessu sambandi hversu lítil áhersla er hér lögð á að leysa þessi vandamál a.m.k. að hluta til með því að efla almenningssamgöngur. Enn ber þar allt að sama brunni. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh.: Hafa stjórnvöld tekið upp viðræður við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um að gera átak í að efla samgöngur, almenningssamgöngur, sem lið í þessum málum? (Forseti hringir.) Ég held að það sé alveg einboðið að í því eru fólgnir miklir hagsmunir ríkisvaldsins að leggja þar eitthvað af mörkum.