Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:48:11 (801)

2000-10-19 13:48:11# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að gera grein fyrir tillögu sem samþykkt var í borgarráði 11. október sl., en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ljóst er að gatnakerfi borgarinnar annar ekki þeim mikla umferðarþunga sem er á álagstímum. Mikið ófremdarástand hefur því skapast af þeim sökum og má búast við að ástandið versni enn þegar kemur fram á vetur. Mikilvægt er að borgaryfirvöld leiti allra leiða til að tryggja öruggari og greiðari umferð fólks um borgina og ríkið tryggi þau fjárframlög sem ætluð voru á vegáætlun til framkvæmda við stofnbrautir í Reykjavík en skeri þau ekki niður við afgreiðslu fjárlaga, eins og gert hefur verið undanfarin ár og áformað er í fjárlögum næsta árs.

Borgarráð samþykkir að beina þeirri áskorun til þingmanna Reykjavíkur að þeir standi vörð um hagsmuni höfuðborgarinnar þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga.``

Fréttir til okkar þingmanna af niðurskurði í vegaframkvæmdum í Reykjavík hefur öll verið í véfréttastíl sem mér finnst alveg með ólíkindum og eitt er víst að þær hafa ekki verið bornar til baka. Ég vil leggja sérstaka áherslu á færslu Hringbrautar og fá skýr svör hjá ráðherra hvað þá framkvæmd varðar. Það er ekki að ástæðulausu því að sú framkvæmd er óhjákvæmileg vegna byggingar barnaspítala á Landspítalalóð. Þetta hefur öllum verið ljóst og var undirritaður samningur milli Reykjavíkurborgar og þriggja ráðherra í desember 1998 þar sem skýrt er tekið fram að þetta tvennt fylgist að.

Í samkomulaginu sem er á milli allra þessara aðila er kveðið á um að framkvæmdir Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar við færslu Hringbrautarinnar skuli hefja sumarið 2001. Það leikur enginn vafi á nauðsyn þessarar framkvæmda, færslu Hringbrautar, og það reynir á þingmenn í því máli. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur stutt þetta og sagt að þetta mál væri í höfn, það ætti ekki að skera neitt þarna niður. Málið er klárt frá hendi Reykjavíkurborgar. Nú vil ég spyrja hæstv. samgrh. og fá um það skýr svör en ekki í örlitlu framhjáhlaupi eins og áðan: Á að standa við þá samninga sem voru undirritaðir af þremur ráðherrum?