Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:57:06 (805)

2000-10-19 13:57:06# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er engu líkara en hæstv. samgrh. hafi verið að fíflast með þingheim þegar hann við afgreiðslu vegáætlunar í maímánuði sl. jók framkvæmdafé til sérstakra verkefna í vegamálum á árunum 2001 og 2002 um 700 millj. kr. en ætlar svo að skera niður til vegamála nú við fjárlagaafgreiðsluna fyrir næsta ár um 800 millj. Mér heyrðist af orðum hæstv. ráðherra áðan að a.m.k. helmingur þess muni koma niður á höfuðborgarsvæðinu. Mér sýnist því að sýndarmennskan sé söm við sig í þessu máli hvort sem í hlut á hæstv. samgrh. eða borgarfulltrúar sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þeir vekja með réttu athygli á ófremdarástandi sem skapast hefur vegna þess að gatnakerfi borgarinnar annar ekki umferðarþunga á álagstímum en sitja hjá við tillögur Reykjavíkurlistans þess efnis að mikilvægt sé að ríkið tryggi þau fjárframlög sem ætluð voru á vegáætlun til framkvæmda við stofnbrautir í Reykjavík en skeri þau ekki niður. Það hefði hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir átt að hafa í huga þegar hún kvartaði yfir Reykjavíkurlistanum áðan.

Landsbyggðin á vissulega allan minn skilning varðandi þörf fyrir bættar samgöngur en það þarf líka að ríkja skilningur á því á hv. Alþingi að á höfuðborgarsvæðinu er öryggi borgarinnar í sífellt meiri hættu vegna ofurálags á vegakerfið og ekki er lengur hægt að láta niðurskurð á vegafé bitna með ofurþunga á höfuðborgarsvæðinu. Á vegáætlun fyrir 1995--1999 fóru einungis 30% af heildarfjárveitingum til nýframkvæmda til höfuðborgarsvæðisins og á nýrri veg\-áætlun fara þessi 30% niður í 20% af heildarfjárveitingum til nýframkvæmda á landinu öllu sem ætlað er til höfuðborgarsvæðisins. Því er kominn tími til að hæstv. samgrh. hlífi einu sinni höfuðborgarsvæðinu við niðurskurði og með því verður glöggt fylgst hvernig það gengur eftir.