Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 13:59:16 (806)

2000-10-19 13:59:16# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Ég var satt að segja hálfundrandi þegar Samfylkingin bað um þessa utandagskrárumræðu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu því að í vor sem leið þegar jarðgangaumræðan stóð sem hæst á þinginu heyrðist ekkert í Samfylkingunni né öðrum vinstri mönnum um samgöngumál höfuðborgarsvæðisins. Nokkrir þingmenn Sjálfstfl. mótmæltu því kröftuglega að suðvesturhornið væri afskipt í þeirri umræðu og síðan náði þingheimur lendingu í samgöngumálum suðvesturhornsins. En ég fagna þessari hugarfarsbreytingu Samfylkingarinnar.

[14:00]

Fyrir tíu árum eða svo þegar samgöngumálin voru í höndum vinstri manna voru fjárveitingar til samgöngumála höfuðborgarsvæðisins við frostmark. Eftir að Sjálfstfl. tók við samgrn. jukust fjárveitingar jafnt og þétt til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu og eru nú 1.200 millj. kr. á ári. Við það bætist fjármagn vegna sérstakra verkefna í samgöngumálum, 200 millj. 2001, 100 millj. 2002, 500 millj. 2003 og 450 millj. 2004. Miklar framkvæmdir í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins eru í gangi, eru að fara í gang og eru í hönnun, t.d. mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut, Reykjanesbraut og Nýbýlaveg; mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Lækjargötu í Hafnarfirði; breikkun Miklubrautar, breikkun Reykjanesbrautar og Fífuhvammsvegar að Garðabæ; gatnamót við Víkurveg; Álftanesvegur; færsla Hringbrautar o.fl. Þá er einnig búið að ákveða tvöföldun Reykjanesbrautar sunnan Hafnarfjarðar og tvöföldun Vesturlandsvegar frá Víkurvegi að Mosfellsbæ.

Góðar samgöngur eru lykilatriði í byggða-, félags- og efnahagsmálum þjóða. Ríkisstjórnin hefur fylgt þeirri stefnu með auknum framlögum til samgöngumála. Auðvitað vilja allir fá meira fé til þessa málaflokks, en sérstaklega er nauðsynlegt að auka enn frekar fjárframlög til suðvesturhornsins þar sem flest er fólkið og mestur fjöldi bifreiða.