Umferðarframkvæmdir í Reykjavík

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:03:42 (808)

2000-10-19 14:03:42# 126. lþ. 14.94 fundur 59#B umferðarframkvæmdir í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu og málefnalegu umræðu sem sýnir að hv. þm. átta sig á því hver staðan er í raun. En það kom mér mjög á óvart að heyra hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kvarta undan þeirri ofuráherslu sem lögð sé á vegakerfið, eins og hv. þm. orðaði það og á þá væntanlega við vegakerfið utan höfuðborgarsvæðisins. Ég vil vekja athygli (Gripið fram í.) á því að yfir 43% alvarlegra slysa verða á vegum utan höfuðborgarinnar. Það virðist oft gleymast. Flest dauðaslysin verða á vegum utan höfuðborgarsvæðisins. Flest slys og óhöpp verða hins vegar í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu, það er alveg ljóst. En alvarlegu slysin verða ekki síður og því miður í flestum tilvikum úti á vegunum. Þess vegna hefur það verið samdóma niðurstaða þingsins að leggja þessa ofuráherslu, eins og hv. þm. kalla það, á uppbyggingu vegakerfisins um allt land. Um það hefur verið býsna mikil sátt, (Gripið fram í.) a.m.k. varð ég ekki var við annað við afgreiðslu vegáætlunar.

Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að nauðsynlegt er að huga betur að almenningssamgöngum. Það hefur því miður ekki verið gert en það er hlutverk sveitarfélaganna. Ríkið hefur komið til móts við sveitarfélögin með niðurfellingu á gjöldum og með beinum styrkjum vegna almenningssamgangna. Það þarf auðvitað að huga að því áfram.

Varðandi Kringlumýrarbrautina vil ég minna á að það er algerlega á valdi höfuðborgarinnar, borgarstjórnar Reykjavíkur, að þar verði á bragarbót. Það liggur fyrir að borgin vill ekki annað en ljósastýrð gatnamót og á meðan svo er þá er það á valdi borgaryfirvalda.

Varðandi það að ekki sé hægt að fara í framkvæmdir sem ég nefndi þá liggur fyrir (Forseti hringir.) að það er nauðsynlegt að setja gatnamót (Forseti hringir.) Víkurvegar og Vesturlandsbrautar í umhverfismat og það mun því miður (Forseti hringir.) hægja á þeirri framkvæmd. Hún verður þó ekki skorin niður. Ég legg áherslu á að við erum að tala um frestun framkvæmda en ekki niðurskurð.