Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:17:14 (810)

2000-10-19 14:17:14# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að mörgu leyti ágætar umræður sem hér hafa farið fram í dag. Ef marka má fyrirliggjandi upplýsingar, þá er brottkast vandamál og það á sér stað í einhverjum mæli, þó að við vitum ekki hversu miklum mæli. En við virðumst þó öll vera einhuga um að við viljum koma í veg fyrir það þótt við höfum vissulega svolítið mismunandi sýn á það hvernig vandamálið verður til og hvar vandamálið er að finna. Ég held reyndar að hætta sé á brottkasti í öllum fiskveiðistjórnarkerfum, ég verð var við það a.m.k. í umræðum við starfsbræður mína erlendis, þeir eru með mörg mismunandi fiskveiðistjórnarkerfi, enginn þeirra sem ég hef átt samskipti við eins og okkar, og þar er brottkast líka vandamál. Það er hins vegar eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni engin afsökun fyrir því í okkar kerfi, að brottkast viðgangist annars staðar.

Ég held að það sé líka rétt sem hefur komið fram að sjómenn vilja ekki henda afla. Og þess vegna held ég að ráðstafanir eins og þetta frv. felur í sér, aukið aðhald, muni hafa áhrif. Menn þurfa ekki að gera því skóna að eftirlitsmennirnir séu einhverjir sem þurfa að standa í deilum um borð og sé ekki líft í matsalnum vegna þess að þeir séu í slíkri andstöðu við áhöfnina sem þeir þurfa að vera samskipa með. Þar af leiðandi held ég að við getum náð árangri með því að veita aðhald og vonandi verða fyrirbyggjandi áhrif breytingarinnar sem allra mest. Vegna þess að ég er alls ekki að tala um það að við ættum að hafa eftirlitsmenn í hverju skipi, hugmyndin er sú að þeir sem eru grunaðir um brottkast á málefnalegum grundvelli vegna samanburðar við aðra, að eftirlitsmenn verði settir um borð í skip þeirra.

Frv. sem hér er til umræðu er ekki einu viðbrögð ráðuneytisins eða ráðherrans við þessari umræðu eins og ætla mætti af orðum hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, því næsta mál á dagskrá er jafnframt tengt brottkastinu og komum við væntanlega að því síðar í dag.

Ég er hins vegar ánægður með að viðbrögð þingmanna hafa yfirleitt verið á þann veg að ef eitthvað er sé þetta til bóta, sumir hafa jafnvel sagt að þetta sé eðlilegt og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að það væri jafnvel sjálfsagt að gera þessa breytingu. En það er hins vegar rétt að þetta leysir ekki allan vandann og ekki er lagt upp með málið til að leysa allan vandann og þess vegna er um það að ræða að verið er að leggja fram fleiri frv. sem tengjast málinu.

En kallað er eftir frekari viðbrögðum og þá tala menn sérstaklega um meðaflareglu, um að Hafró eignist hlut af aflanum sem menn eigi ekki kvóta fyrir eða þá að menn geti valið sér hvað þeir vilja eiga af aflanum í sinn kvóta og láti síðan Hafró eiga restina og síðan er verið að tala um tillögur um löndun utan kvóta.

Í fiskveiðistjórnarlögunum er tegundartilfærslunni ætlað að koma til móts við þetta að hluta og viðskipti með aflaheimildir, þeim möguleika er einnig ætlað að koma til móts við þetta vandamál að hluta. En áhrifin sem reglur um meðafla hefðu væru þau að úthlutaður kvóti í hinum einstöku tegundum yrði minni, því við gætum ekki tekið meðaflann neins staðar annars staðar frá, því varla ætlum við að hafa meðaflann sem viðbót við heildaraflann af hverri tegund. Ef meðafli væri leyfður sérstaklega, þá hlyti hann að koma af þeim úthlutaða afla í tegundunum sem úthlutað er á skipin samkvæmt venjulegum reglum.

Síðan er það, eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að ef um svona reglur er að ræða þá er minni hvati til þess að forðast það að veiða þær tegundir sem menn hafa ekki aflamark fyrir, og voru merkilegar umræðurnar sem hér fóru fram fyrr í dag einmitt um þetta efni. Einnig er hætta á því að meðaflinn verði markmiðið með veiðunum að einhverju leyti. Síðan má segja líka að reglur um meðafla mundu á engan hátt sporna við því sem talað er um þegar að menn eru að stærðarflokka úti á sjó eða þann möguleika eða þann hluta hins meinta brottkasts sem felst í því að menn stærðarflokki úti á sjó. Meðafli mundi á engan hátt leysa það vandamál. En heildarniðurstaðan af þessu sem ég var að segja varðandi meðafla er sú að við mundum væntanlega fá lakari og ónákvæmari fiskveiðistjórn.

Það frv. sem hér um ræðir er um tiltölulega einfalda breytingu á lögum og þess vegna taldi ég ástæðulaust að bíða með hana, jafnvel þótt að störfum séu tvær nefndir sem munu örugglega báðar skoða þetta vandamál, þ.e. brottkastsnefndin sem sérstaklega var skipuð vegna þessa máls eða verkefnisstjórnin, því verkefni hennar er ekki bara að skoða málið, heldur líka að reyna að bæta vinnubrögðin, og síðan er það endurskoðunarnefndin. Hugsanlega munu koma fram fleiri breytingar eftir störf þessara tveggja nefnda en um það getum við ekki sagt strax, en ég taldi ástæðulaust að bíða með að leggja fram þessi tvö frv., annars vegar það sem hér er til umræðu og hins vegar það sem er næst á dagskrá, þangað til störfum þessara tveggja nefnda væri lokið. Þessi breyting stendur út af fyrir sig ekki ein og sér, verið er að reyna aðrar aðferðir eins og komið hefur fram, en um tiltölulega einfalda breytingu er að ræða og ég þakka fyrir ágæt viðbrögð hjá hv. þingmönnum.