Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:30:44 (817)

2000-10-19 14:30:44# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fullyrði það, eftir að hafa átt viðtöl við fjölda sjómanna og hugsað um þessi mál og fylgst nokkuð grannt með þeim í ein 17 ár eða svo, að það mundi draga úr því sem ég kalla þvingað brottkast ef svona möguleikar væru fyrir hendi. Ég er sannfærður um að í talsverðum mæli láta menn sig hafa það sárnauðugir að henda fiski í sjóinn, einfaldlega vegna þess að annars tapa þeir fjármunum. Þegar verðið á leigukvótanum er komið verulega upp fyrir það sem menn fengju fyrir að landa viðkomandi afla með öllum viðbótarkostnaði þá liggur dæmið ósköp einfalt fyrir. Menn réttlæta þetta fyrir sjálfum sér með því að þetta sé vitlaust kerfi og þeir mundu tapa peningum á að koma með aflann að landi og það ýtir undir að það er ekki gert. Ég er ekki að segja að þetta mundi leysa vandamálið. Ég held því ekki fram að ekki yrði eitthvert brottkast eftir sem áður en ég fullyrði að þetta mundi örugglega draga úr því og vera mjög vel séð af mörgum sem líður illa yfir ástandinu eins og það er.