Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 14:53:43 (826)

2000-10-19 14:53:43# 126. lþ. 14.2 fundur 120. mál: #A stjórn fiskveiða# (tegundartilfærsla) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú um tegundartilfærslu innan núverandi kvótakerfis er mál sem hefur lengi verið til umræðu og ályktunar hjá sjómannasamtökum. Ég minnist þess a.m.k. að í ályktunum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands hefur verið bent á þetta atriði í nokkur skipti.

Ég vil geta þess að á síðasta þingi, 125. löggjafarþingi, lagði ég fram mál sem tengdist einmitt þessu máli. Það var frv. til breytinga á 10. gr. fiskveiðistjórnarlaganna varðandi tegundartilfærsluna. Ég lagði þar til að heimildin yrði alfarið tekin úr sambandi og að þar yrðu felldar niður málsgreinar úr núverandi 10. gr., þ.e. 1. mgr., og kæmi þar ný málsgrein í staðinn og síðan lagði ég til að 2., 4. og 5. mgr. féllu einnig niður. Og í stað þess að vera með tegundartilfærslu inni í kvótakerfinu gætu menn veitt fram fyrir sig í hverri tegund í hlutfalli við aflamark sitt, en þeir yrðu þá að borga það árið á eftir af þeirri úthlutun sem þeir fengju á næsta fiskveiðiári.

Ég stakk upp á því að þessi heimild yrði 2%. Út af fyrir sig er sú tala ekkert heilög. Það hefði alveg verið hægt að ræða það að hafa hana rýmri. En ég taldi í þeirri tillögu sem ég lagði fram að rétt væri að taka tegundartilfærsluna alfarið út úr lögunum og til þess að mæta tilfallandi uppákomum manna við það að stunda fiskveiðar og þeir stæðu frammi fyrir því að eiga ekki aflamark af ákveðinni tegund, þá væri mönnum heimilt að veiða fram fyrir sig. En það yrði hins vegar dregið frá árið á eftir og tegundartilfærslan í raun og veru hyrfi.

Þetta frv. fékk þá afgreiðslu í sjútvn. að málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar með sérstöku nefndaráliti. Það nefndarálit var samþykkt í þinginu og í því segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu og greinargerð með því og telur að tegundartilfærslur eins og þær hafa verið tíðkaðar gangi gegn markmiði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um vernd og uppbyggingu fiskstofna.``

Undir þetta skrifuðu allir nefndarmenn. Ég held ég fari rétt með það. Og málið var afgreitt þannig úr nefnd. Hins vegar var tekið undir það í nefndinni að þetta sjónarmið ætti við rök að styðjast.

Það frv. sem hæstv. sjútvrh. leggur nú fram kemur að vissu leyti að þessu máli en er samt með talsvert annarri hugsun en málið bar að í fyrra og kom til sjútvn. og eins og það var afgreitt þaðan, finnst mér. Málið mun auðvitað aftur fara til sjútvn. og verður rökrætt þar. En eins og það er fram sett þá nær það aðeins til þess að minnka notkunina í hverri tegund niður í 2%.

Þessi tegundartilfærsla er auðvitað dálítið flókið mál og það eru margar hliðar á henni. Tegundartilfærslan hefur m.a. verið verslunarvara í kvótakerfinu. Menn hafa jafnvel gert um það samninga að þegar afli færist á milli skipa þá tilheyri tegundartilfærslan þeim sem væri að fá til sín eða jafnvel sæti eftir eða þá að borgað yrði sérstaklega fyrir tegundartilfærsluna sem hugsanlega fylgdi með pakkanum. Menn hafa hreinlega litið á þetta sem aðferð til þess að auka aflamarkið og þannig hefur það í reynd verið notað því að í þeirri töflu sem fylgdi með þessu máli á liðnu þingi þá kom fram að tegundartilfærslan hafði verið notuð til þess að framleiða kvóta þó nokkuð langt umfram ráðgjöf fiskifræðinga og heimilaðar aflaheimildir stjórnvalda. Það hafði mest borið á því að menn höfðu notað þetta gat --- löglega gat því þetta var í lögunum og þess vegna var verið að leggja til að því yrði breytt --- til þess að framleiða sér til handa meiri heimildir í ákveðnum fisktegundum, sem nýttust þeim sérstaklega, heldur en lögin höfðu heimilað.

Það er svo að tegundartilfærslan sem hlutfall af verðmætisstuðli kvótanna nýtist best þeim fyrirtækjum sem stærstar hafa og mestar aflaheimildirnar og mest hafa verðmæti reiknuð eða kvótann reiknaðan í verðmætum. Því verðmætari sem kvóti fyrirtækja er því betur nýtist tegundartilfærsla hjá þeim. Þess vegna varð reyndin sú að tegundartilfærslan leitaði að langmestu leyti í tvær fisktegundir. Hún leitaði annars vegar í karfa og hins vegar í grálúðu.

[15:00]

En það komu líka upp skrýtin dæmi í þessum tilfærslum því að stundum var ein fisktegund notuð ótæpilega til að breyta í þessar tegundir. Á fiskveiðiárinu 1996--1997 voru t.d. notuð tæplega 16 þús. tonn af 50 þús. tonna veiðiheimild á ufsastofninum til að framleiða 9.300 tonn af karfa og 630 tonn af grálúðu í gegnum tegundartilfærslu. Þá þótti einfaldlega hagkvæmt að fara með breytingarnar yfir í karfann annars vegar og grálúðuna hins vegar. Eins og fram kom voru til þessa notuð tæplega 16 þús. tonn af 50 þús. tonna kvótaúthlutun í einni fisktegund, ufsanum.

Síðan hefur ufsinn ævinlega verið notaður í kvótatilfærslur og hafa verið notuð um þúsund tonn á fiskveiðiárinu 1997--1998. Síðan voru á árinu 1998--1999 notuð aftur rúmlega þúsund tonn eða tæplega 1.100 tonn og síðasta fiskveiðiári voru enn á ný notuð þúsund tonn af aflaheimildum ufsans í breytingar í tegundartilfærslunni.

Hins vegar vekur athygli við tegundartilfærslu sl. árs að svo virðist sem útgerðin hafi komist í þrot með að hafa nægt magn af óveiddum fiski til að búa til fyrir sig þann karfa- og grálúðukvóta sem þeir höfðu stundað í mörg undanfarin ár. Það kemur til af ýmsum ástæðum. Það kemur til m.a. af því að sjútvrn. breytir verðmætastuðlunum. Verðmætastuðull ufsa lækkar um 0,65 niður í 0,50 sem þýðir að menn fá færri þorsktonn eða færri tonn af öðrum tegundum --- reyndar ekki þorsktonn því það má ekki breyta í þorsk --- menn fá færri tonn þegar þeir nota karfa á síðasta fiskveiðiári en árið á undan vegna þess að hlutfallið lækkar úr 0,65 niður í 0,50. Sama á við um steinbítinn sem er líka tegund sem menn hafa verið mjög iðnir við að nota í þessa tegundartilfærslu. Verðmætiskúrfa hans lækkar úr 0,70 niður í 0,65. En á móti kemur að ekki þarf eins mörg tonn til að breyta í grálúðu því að verðmætiskúrfa grálúðunnar lækkar úr 1,75 niður í 1,65.

Hvað gerðist þá á síðasta fiskveiðiári? Jú, það gerðist að eins og ég sagði lækkaði verðmætisstuðull grálúðunnar og þá fara menn að breyta meira yfir í grálúðu, það færðist meira af breytingunni þangað. Það sem kemur út úr tegundartilfærslunni á síðasta ári er að til viðbótar við tíu þúsund tonna heimild, sem var kvóti í grálúðu á síðasta ári, hefur útgerðarmönnum tekist með þessari tegundartilfærslu að breyta og framleiða grálúðukvóta upp á 1.505 tonn eða 15% umfram það sem úthlutað var. Það gerðist vegna þess að menn ákveða að þarna sé hagkvæmast að breyta, það þurfi færri tonn núna í að breyta í grálúðu en áður. Það lækkaði um 0,10 eins og ég sagði áðan.

En í karfanum breyta menn hins vegar yfir í tæplega 1.800 tonn sem framleidd eru af karfa. Hvaða tegundir eru þá notaðar á síðasta fiskveiðiári í þetta? Jú, það eru eins og ég gat um áður ufsinn 1.000 tonn, steinbítur 2.000 tonn, sem hefur reyndar alltaf verið notaður í þetta fyrirbæri. Alla tíð meðan hann hefur verið inni í kvótakerfi hefur verið notaður steinbítur, þetta frá 1.700 tonnum upp í 3.000 tonn til að breyta og framleiða karfa- og grálúðukvóta. Það er svolítið sérstakt að sú tegund, steinbíturinn, sem veiðist að stærstum hluta upp við landið og innan tólf sjómílna og er strandveiðitegund, er notuð til þess að framleiða þessar djúpsjávartegundir, grálúðu annars vegar, sem veiðist á 400, 500 til 600 föðmum, og karfa og aðrar tegundir líka sem veiðast sérstaklega á grunnslóðinni, eins og sandkola og skrápflúru, og það eru hvorki meira né minna en tæplega 50% af öllum úthlutuðum sandkolakvóta á síðasta fiskveiðiári sem eru notuð í þessa tegundartilfærslu. 4.232 tonn af 7.000 tonna veiðiheimild, 7.000 tonna kvóta eru notuð í tegundartilfærslu á síðasta fiskveiðiári. Af skrápflúrunni, sem heildarkvótinn var af 5.000 tonn, eru notuð 2.300 tonn tæplega í tegundartilfærslu.

En það sem er hins vegar nýtt á síðasta fiskveiðiári er það að menn hafa farið að framleiða ýsukvóta með tegundartilfærslunni, en ýsan var oft áður notuð einmitt í tegundartilfærslu. Mest sé ég á töflunni að það voru notuð 1997--1998 langt á fimmta þúsund tonn af ýsu til þess að framleiða þessar fisktegundir, karfa og grálúðu.

Þetta er saga tegundartilfærslunnar. Ég held að það hefði verið miklu nær að afnema hana alveg og leyfa mönnum þá að veiða fram fyrir sig meðan þeir eru með þetta aflamarkskerfi og það yrði þá að skila því inn af afla næsta árs en þessi tegundartilfærsla og þessar tilfæringar allar væru lagðar af.

Ég vil svo í lokin enn á ný ítreka að því einfaldara verður að stjórna botnfiskveiðum eftir því sem fisktegundirnar eru færri ef menn ætla að nota kvótakerfið. Upptalning mín á tegundartilfærslum og hvaða fisktegundir hafa í raun og veru verið nýttar í tegundartilfærsluna og hvert þær hafa leitað segir okkur auðvitað að tegundir sem nýtast bátaflotanum og minni fiskiskipunum í meira mæli eru færðar yfir til stærri útgerðanna og eru framleiddar tegundir sem stórútgerðin notar að langmestu leyti, sem eru karfi og grálúða. Það er sú ríka tilhneiging sem hefur verið í tegundartilfærslunni árum saman.