Mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:08:03 (827)

2000-10-19 15:08:03# 126. lþ. 14.3 fundur 29. mál: #A mælistuðlar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla# þál., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Við endurflytjum þetta mál. Það var flutt á síðasta ári og flutningsmenn ásamt mér eru Svanfríður Jónasdóttir, Sighvatur Björgvinsson og Lúðvík Bergvinsson.

Tillgr. er eftirfarandi:

,,Alþingi ályktar að fela sjútvrh. að láta Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins endurskoða mælistuðla sem nú eru notaðir við mat á þyngd sjávarafla og ígildi fiska af einni tegund í annarri í fiskveiðum íslenskra skipa og slægingu og vinnslu sjávarafla.``

Í grg. kemur eftirfarandi fram:

Mælistuðlar sem notaðir hafa verið við mat á þyngd sjávarafla og þorskígildisstuðlar sem notaðir eru við mat á gildi þorsks og annarra tegunda vegna meðferðar kvóta hafa oft verið gagnrýndir harkalega á opinberum vettvangi. Þessar viðmiðanir eru afar mikilvægar fyrir útgerðarmenn og fiskverkendur og mælistuðlarnir geta skipt sköpum hvað varðar samkeppni milli fiskvinnslu í landi og fiskvinnslu í fullvinnsluskipum. Þeir ráða miklu um það hvort afla er landað slægðum eða óslægðum og skipta miklu þegar útgerðaraðilar og fiskverkendur taka ákvarðanir um í hvaða vinnslu eða sölumeðferð fiskurinn fer hverju sinni. Þeir ákvarða gildi aflaheimilda sem útgerðir skiptast á.

Það gefur augaleið að þegar reglur af þessu tagi eru settar er mjög mikilvægt að besta fáanleg þekking á áhrifum mismunandi meðferðar aflans sé til staðar. Slík þekking er ótvírætt til staðar hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þess vegna er hér lagt til að stofnuninni verði falið þetta mikilvæga verkefni.

Komi í ljós að núgildandi reglur hafi mismunað aðilum í útgerð og fiskvinnslu skapast þannig tækifæri til að leiðrétta þá mismunun. Verði það hins vegar niðurstaðan að núgildandi stuðlar séu réttir ætti endurskoðunin að draga verulega úr tortryggni gagnvart gildandi reglum.

Nú er það svo að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa sett út á þá stuðla sem eru notaðir núna og enn heldur sú þróun áfram að aflaheimildir eða réttur til að veiða fisk færist til. Togveiðiflotinn er sífellt að auka hlut sinn í fisktegundunum og það er svo komið að líklega 41--42% af öllum afla koma nú að landi af togveiðiskipum.

Margir telja að þetti sé að hluta til vegna þess að mælistuðlarnir sem notaðir eru í fullvinnsluskipunum séu þeim mjög hagstæðir en fiskvinnslunni í landi óhagstæðir. Um þetta hefur staðið styrr til margra ára og full ástæða er til að taka á þessu máli núna. Mikið hefur líka verið deilt um slægingu á fiski og þá stuðla sem eru notaðir þegar verið er að ákvarða hve mikill kvóti skuli vera á móti hverju tonni í fiski, hvort sem hann er slægður eða óslægður.

Nú er það þannig að óslægður afli, sem landað er, er býsna stór hluti af þeim fiski sem kemur að landi. Það kemur t.d. í ljós að á árinu 1999 var þetta um 24% af öllum afla upp úr sjó sem kom óslægður að landi. Árin 1997--1998 var þetta 29%. Það er afskaplega misjafnt hve mikill hluti aflans er óslægður eftir því hvaða veiðiaðferðir eru notaðar. Þetta er allt frá því að vera upp í 91% af afla sem landað er á árinu 1998--1999 í krókabátum á þorskaflahámarki. En á bátum með aflamarki er þetta einungis 18% árinu 1999. Greinilegt er að það fer mikið eftir útgerðarformum hvernig menn nýta sér eða hvort menn nýta sér að koma með fisk að landi óslægðan eða ekki.

Nú hef ég ekki skoðun á því út af fyrir sig hvort þessir stuðlar séu réttir hvað varðar slægðan fisk. En ég hef hins vegar vitneskju um að það er býsna misjafnt á milli árstíða og svæða hve mikið slóg er í fiskinum og hef satt að segja aldrei getað skilið að menn treystu sér yfirleitt til að hafa þennan hátt á. Satt að segja fyndist mér að það kæmi til greina að skoða einhverja aðra möguleika til þess að meta þessa hluti. Þar gæti alveg komið til greina að auðvitað er hægt að beita svipuðum aðferðum í landi og gert er úti á sjó. Þar er fiskurinn metinn í fullvinnsluskipunum eftir á hve mikill kvóti er á bak við það sem menn unnu. Það er líka hægt að taka á þessu í landi ef menn vilja skoða möguleika til þess því að fiskurinn er allur slægður að lokum. Einhvern tíma í ferlinu er hann slægður. Það mun ekki vera mikið um það að hann sé fluttur úr landi óslægður. Þannig mætti skoða ýmsa möguleika í því. En aðalatriði málsins, og það sem er lagt hér til, er að farið verði yfir þessi mál.

Í umræðum um þetta mál í fyrra kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann taldi að full ástæða væri til að skoða þessi mál, a.m.k. hvað varðar slægða fiskinn, og sagði þá, með leyfi hæstv. forseta, að hann væri sannfærður um að bæta mætti úr þessu og þetta mál hafi legið á borðinu hjá honum um nokkurn tíma en að það væri flókið og hann hefði ekki alveg áttað sig á því hvernig væri rétt að nálgast það.

[15:15]

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi áttað sig á því hvernig eigi að nálgast málið og hvort tillagna sé að vænta frá honum eða hvort hann muni kannski vera tilbúinn að styðja þær tillögur sem hér eru sem eru skynsamlegar að mínu mati. Ég tel að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sé einmitt sá aðili sem gæti best framkvæmt þessa endurskoðun. Hún er að mínu viti afskaplega nauðsynleg og þá læt ég algerlega liggja á milli hluta hvort það verða breytingar eða ekki. Það kann að vera að niðurstaðan verði sú að þær verði litlar. Ég býst samt við því að þær verði einhverjar. En það er á því mikil nauðsyn að menn verði meira sammála um hvort þessar reglur séu sanngjarnar og alveg sérstaklega er ástæða til að fara yfir þetta vegna þeirrar gagnrýni sem hefur verið og er uppi um að sífellt sé verið að flytja meira af aflaheimildum yfir á fullvinnsluskipin á kostnað landvinnslunnar vegna þess að þessar reglur séu ósanngjarnar.

Ég fer svo fram á það, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til sjútvn. að lokinni umræðunni.