Áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:30:56 (833)

2000-10-19 15:30:56# 126. lþ. 14.12 fundur 103. mál: #A áhrif lögfestingar stjórnarfrumvarpa á byggða- og atvinnuþróun# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held að sú till. til þál. sem hér var mælt fyrir af hv. þm. Magnúsi Stefánssyni sé mjög af hinu góða og hefði í raun löngu átt að vera búið að velta upp þessu sjónarmiði, að við samningu löggjafar skuli leggja mat á það hvaða áhrif hún hafi á byggð og byggðaþróun og atvinnuþróun í landinu.

Við höfum hér í dag m.a. rætt ýmislegt sem snýr að sjávarútvegi, eftirliti og eftirlitsstörfum. Það eru ekkert mörg ár síðan Fiskistofa var stofnuð. En starfsemi hennar var sett niður í Reykjavík þó að mikið af störfunum sé unnið vítt og breitt úti um land og á fiskimiðunum og sennilega minnst af þeim við höfuðborgina.

Ég held að það mál sem hér er hreyft sé ákaflega þarft og ég held að það sé réttur vettvangur að láta Byggðastofnun leggja mat á hvort fyrirhuguð lagasetning hafi áhrif á byggðirnar og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Ég hef a.m.k. skilið umræður svo í hv. Alþingi að flestallir þingmenn sem tjáð sig hafa um byggðaþróunina og flutning fólks af landsbyggðinni til þéttbýlisins á suðvesturhorninu séu því hlynntir að slík þróun verði stöðvuð og helst snúið við.

Vandamálin sem hafa fylgt hinum öru fólksflutningum hafa ekki bara orðið til úti á landsbyggðinni. Þau hafa líka orðið til í ákveðinni þenslu á höfuðborgarsvæðinu. En það má samt sem áður segja um svæði sem er að taka við fólki og fólk sem er að koma inn á svæði og veldur þar uppbyggingu og þenslu, að áhrifin séu þó frekar í jákvæða átt fyrir það svæði þó svo að vissulega sé hægt að finna því mörg rök að sá öri fólksflutningur sem hefur verið inn á Reykjavíkursvæðið sé farinn að valda miklum erfiðleikum í borginni, m.a. í samgöngukerfinu.

En þróunin er miklu sárari fyrir byggðir landsins þaðan sem fólkið fer, skilur eftir oft eignir verðlitlar, þaðan sem fólki fækkar. Sveitarfélögin sitja eftir með samdráttinn og tekjutapið og menn sjá ekki þá festu og það öryggi sem þeir vilja hafa við búsetu sína.

Ég held að stór hluti af áhrifum löggjafar hér á landi á undanförnum árum hafi einmitt snúið að þessari öryggistilfinningu fólksins, að fólk viti að þeir atvinnuhættir sem byggðirnar hafa byggst á á undanförnum árum og áratugum séu til staðar en séu ekki háðir duttlungum þeirra sem með fara, þ.e. hvort atvinnurétturinn fer í næsta mánuði eða á næsta ári. Þetta hefur orðið til þess að jafnvel fólk sem hefur ekki verið að hugsa sér til hreyfings af landsbyggðinni hefur skyndilega farið að velta því fyrir sér eða taka ákvörðun um að það væri sennilega rétt að selja og koma sér í burtu áður en atvinnutækifærunum fækkar.

Þetta hefur einkanlega tengst stefnunni í sjávarútvegsmálum sem ég ætla að leyfa mér að kalla eyðibyggðastefnu eins og hún hefur verið útfærð. Hún hefur valdið því að mikil röskun hefur orðið á undirstöðu byggðanna og það er sama hversu vel við reynum að standa að verki við að koma inn með ný atvinnutækifæri. Það verður ákaflega erfitt að fara inn í sjávarútvegsþorp með svo mörg atvinnutækifæri þegar t.d. útgerð fimm fiskiskipa er hætt á einu bretti og allar aflaheimildir þeirra hverfa burtu, öll atvinnutækifæri sem þeirri umsetningu fylgdi. Þá verður erfittt að bæta það með tiltölulega fáum störfum sem ekki hafa þau margfeldisáhrif sem störf í sjávarútvegi hafa.

Þetta vildi ég sagt hafa um þetta mál og lýsi því einfaldlega yfir að þetta mál munum við styðja í Frjálslynda flokknum og ég tel til mikilla bóta að það verði skoðað gaumgæfilega hvernig áhrif af lagasetningu koma að byggð og atvinnuþróun í landinu.