Endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 15:50:40 (838)

2000-10-19 15:50:40# 126. lþ. 14.13 fundur 105. mál: #A endurgreiðsla sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga# þál., Flm. PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Flm. (Páll Magnússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur undirtektirnar. Þær komu auðvitað ekki á óvart í ljósi þess að hún hefur, eins og hún kom inn á í ræðu sinni, flutt frv. til laga í anda þessarar þáltill. Ég hafði ekki séð efni þeirra frv. þegar ég lagði þessa þáltill. fram en sá frv. þegar það kom inn í þingið í vikunni. Ég fagna því að sjálfsögðu og get í sjálfu sér tekið undir orð hv. þm. um frumkvæði þingsins til setningu laga og framlagningu frv. Ég get auðvitað lýst stuðningi við þetta frv. eða efni þess eins og það liggur hér fyrir en því miður get ég líklega ekki tekið þátt í afgreiðslu þess þar sem ég fer af þingi eftir þennan þingdag.

Ég hef ekki meira um málið að segja að sinni en ítreka að ég tek undir orð þingmannsins um að þingið haldi frumkvæði í lagasetningu og afgreiði því frv.