Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:31:53 (847)

2000-10-19 16:31:53# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar flytja hér afar mikilvægt mál um samkeppnishæfa menntun sem er eitt stærsta mál samtímans. En þetta er jafnframt afar pólitískt mál og það er merkilegt, herra forseti, að fleiri stjórnarþingmenn skuli ekki vera hér til að taka þátt í umræðu þessari miðað við það hvernig þetta mál er lagt upp og hversu stórt það er í dag og í raun og veru á öllum tímum.

Ekki síst ber að geta þess að fjárlagaumræðan mun fara fram innan fárra vikna og það er full ástæða til þess hjá stjórnarmeirihlutanum að menn leggi fyrir sjálfa sig áleitnar spurningar um menntun, menntunarstigið hjá okkur og framlag til menntunar. Við erum að leggja til að auka fjármagn til menntamála til samræmis við nágrannalöndin og að verja álíka fjármagni til háskólastigsins og nágrannalöndin gera. Á báðum skólastigum er þessu mjög ábótavant. Það kemur fram í þessu ítarlega þingmáli hversu mikið vantar á að við séum með sambærilega stöðu í menntamálum og aðrar þjóðir. Við verjum aðeins 5,1% af landsframleiðslunni til menntamála og erum langt á eftir Evrópuþjóðunum, að ég tali ekki um háskólastigið, en þar erum við í 23. sæti af 28 þjóðum OECD. Þetta er auðvitað mál sem þingmenn í dag ættu að vera að ræða í tengslum við fjárlagagerð.

Það er alvarlegur brestur í kerfinu hjá okkur hvað varðar laun, ekki bara laun kennara heldur líka laun leikskólakennara, því eins og lögð er áhersla á í málflutningi okkar og í þessu þskj. á í raun að leggja áherslu á menntun frá leikskólasviðinu og upp í háskóla í gegnum allar þær brautir sem eru þar á milli, verknám, tækninám eða hvað það er. Það kom fram í áhugaverðum morgunþætti fyrir skömmu að byrjunarlaun leikskólakennara væru lægri en almennar launagreiðslur á skyndibitastöðunum þar sem aðallega starfar ungt fólk sem ekki hefur menntað sig og er tímabundið að störfum á þessum vinnustöðum. Það hlýtur að vekja hvern mann til umhugsunar.

Hér er líka lagt til að gera fjölþjóðlegan samanburð á kjörum og vinnutíma kennara og það, herra forseti, er mjög mikilvægt vegna þess að bæði menntun kennara og kjör kennara tengjast þeirri uppstokkun sem við tölum um að þurfi að fara í þar sem við viljum að einn hluti þess sé að útskrifa nemendur fyrr. Það hlýtur að þýða lengri skólagöngu á hverju ári. Það hlýtur að þýða mjög mikla breytingu á starfi og starfskjörum. Ef við ætlum að meta kennarastarfið betur til launa en nú er verðum við líka að sýna það í áherslum á menntamál kennara og endurmenntun, í raun og veru að setja þessi mál, menntun leikskólakennara, kennara og kjör þeirra algjörlega í öndvegi.

Ef við skoðum launakjör kennara og þau eru borin saman á alþjóðlegum vettvangi kemur í ljós að Íslendingar hafa ekki skilað inn gögnum í alþjóðlegan samanburð og þess vegna er erfitt að ná þessum samanburði. Það er erfitt fyrir kennarana og það er erfitt fyrir okkur sem ætlum að meta hvað við gerum í þessum mikilvæga málaflokki. Þess vegna er lagt til af okkar hálfu að ítarlegur samanburður verði gerður á bæði launakjörum og vinnutíma kennara hérlendis og erlendis.

Ég vil líka leggja áherslu á að þegar gerðar eru skoðanakannanir og rætt á hinum ýmsu sviðum um stöðu kennara þá virðist það vera viðhorf hjá þjóðinni allri að það eigi að gera vel við kennara, enda eigi að gera til þeirra miklar kröfur. Það eru kennararnir, bæði leikskólakennarar og kennarar sem eru með yngstu börnin og okkar ungviði í höndunum á mjög róstusömum tímum. Þetta er erfitt starf og það hefur sýnt sig og kemur fram í greinargerð hjá okkur að mjög margir kennaramenntaðir hverfa úr starfi. Auðvitað eigum við að spyrja hvernig á því standi og hvað við getum gert til að bæta úr því og snúa af þeirri braut.

Herra forseti. Ég vil líka gera að umtalsefni hversu miklar breytingar hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði, hvernig störfum fækkar með aukinni tækni í rótgrónu atvinnugreinunum, bæði sjávarútvegi og landbúnaði. Það verða til ný störf á sviði ferðaþjónustu, hátækni og upplýsinga. Það er dálítið undarlegt að hugsa til þess hversu lítið þessi ríkisstjórn gerir af því að spá í framtíðina og átta sig á því hvers konar menntunar og starfsþjálfunar er þörf á næstu áratugum. Það fer ekki fram umræða um það í þessu þjóðfélagi, a.m.k. ekki að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þess vegna skortir heildarsýn yfir þær breytingar sem bæði eiga og hafa átt sér stað. Það er enginn einn aðili innan stjórnkerfisins sem fæst við það meginverkefni að beina sjónum að því sem koma skal í atvinnumálunum og sem kallar á það að stjórnvöld átti sig á hvernig þörfin er bæði fyrir almenna menntun, starfsmenntun, og ekki síst endurmenntun þegnanna. Það er margbúið að nefna það á Alþingi að því er spáð að á næstu öld þurfi nánast hver einasti einstaklingur að mennta sig fyrir allt að þrjú störf á ævinni sem kallar augljóslega á miklu öflugra mennta- og starfsmenntakerfi en við höfum. Það er alveg ljóst að framtíðin kallar á vel menntað vinnuafl og sérhæfingu því að þeir sem ráða yfir færni og nýrri tækni munu standa sig vel. En hætt er við því að þeir sem ekki eru læsir á tæknina verði undir. Ekki síst þess vegna er þetta mál borið fram eins og það er sett upp.

Ég vil líka, herra forseti, í lok máls míns vekja athygli á því að síðar á dagskrá þessa fundar er til umræðu till. til þál. frá Hólmfríði Sveinsdóttur og nokkrum fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar. Sú tillaga er um kynbundinn mun í upplýsingatækni og er skyld því máli sem við erum að flytja hér fram að því leyti að hún felur í sér hvernig auka megi áhuga og þekkingu stúlkna á upplýsingatækni. Bæði í því máli og því máli sem er borið hér fram er áhersla okkar lögð á jafnrétti og jafnræði í menntun stúlkna og drengja, á menntun þjóðarinnar og ekki síst á að sú menntun verði til þess að bæta hag allra.