Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:44:02 (849)

2000-10-19 16:44:02# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar við ræðum menntamál, ekki síst þegar við förum almennt yfir þau eins og hér er að ákveðnu leyti gert, er ekki nema sjálfsagt að menn byrji á því að velta því fyrir sér hvaða kröfur verða gerðar á nýrri öld. Hvaða kröfum ætlum við að mæta með því menntakerfi sem við viljum sjá? Ætlum við að mæta þeim kröfum sem gerðar voru á öldinni sem er að líða, kröfum iðnaðarsamfélagsins, eða ætlum við að mæta kröfum þekkingar- og upplýsingasamfélagsins?

Herra forseti. Við höfum mætt hinum kröfunum, af vanefnum þó, en það er alveg ljóst að við þurfum á nýrri öld að mæta þeim kröfum sem uppi verða og uppi eru til þess að Ísland geti verið samkeppnishæft í samfélagi þjóðanna. Við erum að tala um Ísland, en við erum líka að tala um samfélögin á Íslandi og við erum að tala um einstaklingana.

[16:45]

Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að kosin sé nefnd sem hafi það hlutverk að skoða alþjóðlegan samanburð og eru tiltekin sjö atriði sem á að fara yfir og síðan eiga að koma tillögur, nefndin komi með ábendingar um hvað má hér betur fara. Það er reyndar svo, herra forseti, að þegar í greinargerðinni og þeirri reifun sem á sér stað kemur mjög ljóslega fram hvað má betur fara. Og það er býsna margt, herra forseti.

Við höfum fylgst með því á undanförnum árum hvernig því skólakerfi sem við ætlum börnum okkar og ungmennum að þroskast í hefur verið stýrt inn í ákveðinn samkeppnisfarveg, hvernig í rauninni verið er að stýra skólakerfinu í þann farveg sem það var í um miðja og upp úr miðri þeirri öld sem er að líða. Við horfum á það gerast að mælikvarðarnir eru að verða þeir sömu og voru hér á liðnum áratugum. Við horfum til þess að samkeppnisnámið leiðir af sér aukinn fjölda samræmdra prófa og við horfum á það að verið er að vinna að því með ýmsum leiðum að gera skólakerfið þannig að flestir þættir séu mælanlegir þannig að hægt sé að gera samanburð, þannig að hægt sé að láta skólana keppa, láta einstaklinga keppa. Þetta er gert, herra forseti, algjörlega án tillits til þess að það er ekkert í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á menntamálum á Vesturlöndum sem leiðir í ljós að nám sem kallast samkeppnisnám, og ég var að lýsa hér áðan, hafi meiri árangur í för með sér en það nám sem er á móti kallað samvinnunám og byggir á því að menn vinni saman og efli samvinnu sín í millum og þroski sig þannig.

Herra forseti. Það er svolítið merkilegt að þegar maður les skrif þeirra sem hafa verið að velta framtíðarsamfélaginu fyrir sér, og þá er miðað við þær aðstæður sem eru að skapast og munu halda áfram að þróast, þá er það fullvissa ýmissa sérfræðinga að það sem kallað verður eftir á nýrri öld verði einmitt samvinna í stað samkeppni, verði frumkvæði í stað þess utanbókarnáms, þess mælanlega náms sem nú um stundir er lögð áhersla á, verði sköpun, frjó hugsun og sköpun. Herra forseti. Alls þessa getum við saknað úr því skólakerfi sem við búum við núna.

Það hefur komið hér fram og er hluti af greinargerð þessarar tillögu hversu mikilvægt er að efla menntakerfið til þess að koma í veg fyrir þá nýju stéttaskiptingu sem ýmsir óttast að geti orðið ef þess ekki er gætt að passa upp á það að hér sé jafnrétti til náms. Við berum ugg í brjósti einnig vegna þessa, herra forseti, þegar við horfum til þeirrar þróunar sem við höfum hér orðið vitni að, þar sem augljóslega er um að ræða ákveðið dekur við einkaskóla og ákveðnar tilraunir til að koma hér á skólagjöldum. Þetta hvort tveggja stríðir í rauninni gegn þeim markmiðum sem við viljum setja um jafnrétti til náms, þ.e. um að möguleikar allra til náms séu jafnir, að fjárhagslegar aðstæður fjölskyldna eða einstaklinga komi ekki í veg fyrir að menn fái notið hæfileika sinna.

Herra forseti. Í þessari tillögu er nokkur áhersla lögð á það hversu fjársvelt íslenska skólakerfið er og auðvitað vekur athygli sá samanburður sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var hér með áðan á því hlutfalli þjóðartekna sem var hér fyrir 1990, þ.e. hann tók árið 1988 til viðmiðunar við árið 1998, og það kemur í ljós að þetta hlutfall er lægra nú en það var þá. Auðvitað vekur það athygli og undirstrikar það metnaðarleysi sem hér er gert að umtalsefni, að í menntamálunum, sem eru þó svo mikilvæg, skuli menn ekki hafa getað haldið í, hvað þá að menn hafi nú bætt við eins og virkilega hefði verið nauðsyn og er nauðsyn miðað við þær breyttu og nýju aðstæður sem við stöndum frammi fyrir.

Auðvitað er það vegna þessa, og að ekki hefur verið metnaður til þess hjá Sjálfstfl. sem hefur farið með þessi mál að bæta hér við fjármálum, að þróunin hefur verið í þá átt sem ég var að lýsa áðan. Menn tala um það á góðum stundum hversu mikilvægt sé að minnka vægi bóknáms, auka vægi starfsnáms, hversu mikilvægt starfsnámið sé og starfstengt nám í framhaldsskólunum til að koma í veg fyrir brottfall sem því miður er allt of mikið. En það gerist afskaplega lítið einfaldlega vegna þess að starfsnám og starfstengt nám og sú fjölbreytni sem þarf til þess að mæta hinum mismunandi kröfum ungmenna og barna, er svo dýr. Hún kostar nefnilega peninga, herra forseti. Og því hefur skólakerfið, hvað svo sem lögin segja, ekki mætt þessum breiða hópi nemenda og brottfall er enn mikið í kerfinu.

Herra forseti. Að lokum vil ég gera að umtalsefni hversu mikilvæg menntunin er þegar menn fjalla um byggðamál. Þegar menn horfa til þeirrar atvinnuháttabreytingar sem á sér stað í landinu og kemur hvað verst við sjávarbyggðirnar og sveitirnar þá er augljóst að það virkasta sem menn gætu gert í þessari stöðu er að efla menntunarmöguleika þess fólks sem nú þarf að hverfa frá þeim störfum sem það hefur hingað til unnið og takast á við ný. En þetta er ekki gert, því miður. Það eru tilburðir uppi um stofnun símenntunarmiðstöðva og margt gott fólk stendur að þeim. En það er sama sagan þar og í skólakerfinu, herra forseti. Fjárskortur ræður því miður allt of miklu um hvernig það nám er og hefur verið að þróast.