Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:00:22 (851)

2000-10-19 17:00:22# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Með aukningu samræmdra prófa er gamla landsprófið lifandi komið aftur --- arfur frá öldinni sem er að líða. Gallinn við samræmd próf í dag er ekki bara sá að þau séu notuð til að bera saman hluti sem gefa síðan fullkomlega ófrjóa niðurstöðu, því að ekki getur þú flutt barnið þitt á milli skóla þó að þú sért ósáttur þar sem skólahverfi og sveitarfélög koma einfaldlega í veg fyrir það, heldur kannski miklu frekar hitt að smám saman byrjar skólastarfið að snúast meira og minna um þessi samræmdu próf vegna þess samanburðar sem er í gangi og staðreyndanámið tekur yfir alla aðra vinnu í skólanum.

Nú er það svo að það er út af fyrir sig mjög gott að menn geti borið saman ýmislegt í skólastarfi eins og annars staðar en hvernig þessum prófum hefur verið beitt er ekki ásættanlegt að mati þeirra sem vilja að skólarnir sinni öðru hlutverki, ekki síst á nýrri öld, en staðreyndamötun og mælingum á því hversu miklar staðreyndir nemendur geta síðan innbyrt. Það er einfaldlega ekki sú skólastefna sem við viljum sjá. Mér finnst merkilegt af því að hv. þm. Pétur Blöndal er stundum býsna frjór í umræðum og frjórri en margir flokksbræður og flokkssystkin hans að hann skuli sjá þetta sem einu glætuna í því sem er að gerast. Mér finnst þetta nefnilega vera dálítið mikið afturhvarf til þeirrar fortíðar sem ég held að sé best að við kveðjum en kannski nauðsynlegt miðað við ríkjandi aðstæður þar sem svo litla peninga er að hafa að sú þjónusta og sá fjölbreytileiki og þeir möguleikar sem hv. þm. rakti fyrir okkur áðan eru algerlega utan seilingar því að það eru engir peningar til, hvorki til að borga góðum kennurum né til að standa að öllu því sem hv. þm. telur að sé nauðsynlegt.