Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:05:37 (854)

2000-10-19 17:05:37# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti það nokkuð hreystilega mælt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að halda því fram að við legðum þetta mál fram eins og það væri eitthvert sérmál vinstri manna og samfylkingarsinna, eins og hann orðaði það, að fjalla um menntamál. Ég er viss um að það er fullt af sjálfstæðismönnum sem hafa áhuga á málinu. Það er hins vegar þannig, herra forseti, að þessir sjálfstæðismenn sjást ekki í þingsal. Í þessari umræðu eru aðeins tveir sjálfstæðismenn, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og vera má að hér í afhýsi sé stödd ágæt þingkona að vestan.

Herra forseti. Það skiptir ekki máli. Ef það er þannig að Sjálfstfl. hafi svona ákaflega mikinn áhuga á menntamálum, hvar er þá stefna Sjálfstfl. varðandi nýja hagkerfið, varðandi þá nýju framtíð sem hv. þm. var að tala um. Hvar er sú stefna? Hennar sér hvergi stað, hvorki í máli hv. þm. Péturs H. Blöndal né í stefnu hæstv. menntmrh. og ég auglýsi eftir þeirri stefnu.

Hv. þm. kemur hér og ber hv. félaga sinn Ágúst Einarsson þungum sökum og segir að hann sé fastur í forneskju. Allt mál hv. þm. Péturs H. Blöndals sýndi að hann hefur ekki lesið tillöguna. Hv. þm. hefur augljóslega ekki farið yfir greinargerð tillögunnar þar sem talað er um námsgagnagerð og fjarkennslu. Framtíðin hlýtur að verulegu leyti að byggjast á því.

Herra forseti. Hvar er stefna Sjálfstfl. um það? Það mál hefur þróast hér á landi fyrir frumkvæði einstakra skólamanna, einstakra skóla, áhugasamra félagasamtaka en ekki vegna þess að þetta sé stefna af hálfu þess flokks sem hefur farið með þennan málaflokk í 13 ár á síðustu 16 árum.

Herra forseti. Auðvitað er rétt hjá hv. þm. að í framtíðinni þarf að búa til byltingarkenndan námsbúnað, þar á meðal kennsluforrit. En er ekki hv. þm. staddur aftur í forneskjunni þegar hann segir að nemendurnir geti setið í skólastofu sinni eins og hann orðaði það og sótt sér kennsluforritin? Við erum að reyna að búa til nýja veröld þar sem menn geta setið heima hjá sér eða úti á sjó eða í öðrum löndum og numið samt við íslenska menntakerfið. Það virðist hv. þm. ekki skilja.